Guðna minnst með þakklæti og hlýju

Mynd/HIV-samtökin

Guðni Baldursson, einn stofnenda og fyrsti formaður Samtakanna ’78, er látinn, 67 ára að aldri. Hann var brautryðjandi og óþreytandi í baráttu sinni fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi og margir minnast hans með miklu þakklæti og hlýhug í samantekt sem birtist á gayicleand.is

Guðni var fæddur 4. mars árið 1950, en lést á heimili sínu 7. júlí síðastliðinn. Útför hans fór fram frá Fossvogskirkju í dag.

Hann var með háskólagráðu í viðskiptum og starfaði hjá Hagstofu Íslands í tæplega 40 ár. Lífsförunautur Guðna var Helgi Magnússon, en hann lést árið 2003.

Guðni var fyrsti Íslendingurinn, sem talaði opinskátt um samkynhneigð sína, til að bjóða sig fram til Alþingis og átti hann stóran þátt í að móta löggjöf um réttindi hinsegin fólks.

Jónína Leósdóttir rithöfundur er ein þeirra sem minnast Guðna á síðu gayicleand. „Við erum heppin að hafa haft Guðna. Við eigum honum mikið að þakka, bæði hinsegin fólk og allir Íslendingar. Hann skilur eftir sig falleg fótspor sem leiða okkur áfram á jákvæðri braut,“ segir Jónína um vin sinn.

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-samtakanna, minnist Guðna einnig með hlýju. „Ég veit að ég tala fyrir hönd margra þegar ég segi að Guðna, þessa góðhjartaða manns, verði minnst með virðingu og hlýju, og jafnframt þakklæti fyrir sameiginlega vegferð okkar.“

Guðni var einn að stofnfélögum samtakanna og sat í stjórn þeirra nánast óslitið hátt í 30 ár. Einar segir það hafa verið samtökunum til mikilla hagsbóta að njóta krafta Guðna.

„Það var ómetanlegt að fá greindan og lífsreyndan baráttumann í félagsstarfið, Guðni þekkti hlutina eftir að hafa rutt brautina í byrjun fyrir mannréttindum homma og lesbía árin á undan. Það var styrkur í nærveru þessa hógværa og æðrulausa manns, á þeim þungbæru tímum þegar alnæmisfaraldurinn var að breiðast út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert