Torskilin orð, setningaskipan og flókinn texti koma í veg fyrir að margir Íslendingar skilji íslenska lagatexta. Þetta er niðurstaða forrannsóknar á skilningi almennings á lagatextum sem var gerð síðasta sumar en þá voru þátttakendur fáir svo rannsaka þarf skilning almennings á réttindum sínum og skyldum betur.
Annar rannsakenda segir að niðurstöðurnar megi nýta til að gera lagatexta skiljanlegri fyrir almenning en haldið verður áfram með rannsóknina til þess að draga megi afdráttarlausari niðurstöður en af niðurstöðum forrannsóknarinnar.
Olga Margrét Cilia lögfræðingur segir að búið sé að rannsaka skilning fólks á lagatextum á hinum Norðurlöndunum, en aldrei á Íslandi. Hún vinnur að rannsókninni ásamt Birgittu Guðmundsdóttur sem leggur stund á málvísindi.
Niðurstöður forrannsóknarinnar eru á sömu leið og niðurstöður stórrar norskrar rannsóknar um sama efni en niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til þess að norskur almenningur telur framsetningu norskra laga illskiljanlega, orðin flókin og að oft sé erfitt að átta sig á þeim.
Leitað er að þátttakendum í rannsókninni og geta þeir sem ekki hafa lögfræðigráðu eða unnið með lagatexta, með íslensku að móðurmáli, tekið þátt í könnunni. Áhugasamir geta sent tölvupóst á lagaskilningur@gmail.com.
Leiðbeinendur í rannsókninni eru Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Sigrún Steingrímsdóttir, málfarsráðunautur við Héraðsdóm Reykjavíkur.