„Þau eru búin að vera hér á landi í eitt hálft ár. Hún var fórnarlamb mansals í Evrópu áður en hún kom hingað. Hann er búinn að vera í vinnu hjá sama byggingarfyrirtækinu allan tímann og þau eiga átta ára dóttur sem gengur í skóla hér á landi og talar íslensku, en það hefur verið ákveðið að senda þau aftur til Nígeríu,“ segir Ragnheiður Freyja Kristínardóttir, sem hefur verið í sambandi við þau Joy, Sunday og hina átta ára gömlu Mary, hælisleitendur frá Nígeríu.
Hún hefur boðað til opins fundar, ásamt þeim Semu Erlu Serdar og Elínborgu Hörpu Önundardóttur, til stuðnings fjölskyldunni, á annarri hæð kaffihússins Stofunnar á morgun, föstudaginn 21. júlí, klukkan 17:30.
Fjölskyldan sótti um hæli hér á landi og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Fyrst var niðurstaðan sú að þau væru í of viðkvæmri stöðu til að vera send aftur til Ítalíu og skyldu því fá efnislega meðferð á Íslandi. Síðar var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að þau gætu snúið aftur til Nígeríu og hefur kærunefnd útlendingamála staðfest þá ákvörðun. Þeim verður því vísað úr landi.
Ragnheiður segist sjaldan hafa séð jafnsterk viðbrögð á netinu og við sögu fjölskyldunnar, sem hefur verið deilt víða á samfélagsmiðlum. Sagan var birt meðal annars á Facebook-síðunni Góða systir og á Femínstaspjallinu. „Konum er ofboðslega brugðið og okkur langar að koma saman og sjá hvað við getum gert. Þetta er fyrir alla þá sem hafa áhuga og getu til að koma saman,“ útskýrir Ragnheiður. „Joy kemur sjálf á fundinn á morgun. Þau eru auðvitað í ofboðslega viðkvæmri stöðu, en þau eru mjög þakklát að fá tækifæri til að segja sögu sína.“
Einnig hefur verið stofnaður undirskriftarlisti á Facebook þar sem fólk getur skráð mætingu, og þannig sýnt þeim stuðning.