Þrjú og hálft ár fyrir kókaínsmygl

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdóm­ur Reykja­ness dæmdi í gær bras­il­ísk­an karl­mann í þriggja og hálfs árs fang­elsi fyr­ir stór­fellt fíkni­efna­laga­brot. Hon­um er gefið að sök að hafa staðið að inn­flutn­ingi á sam­tals 1.950 ml af kókaíni sem hafði 69% styrk­leika, ætluðu til sölu­dreif­ing­ar hér á landi í ágóðaskyni.

Fíkni­efn­in flutti ákærði til Íslands, sem farþegi með flugi frá Amster­dam í Hollandi til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar, og fundu toll­verðir þau í fjór­um brús­um und­ir snyrti­vör­ur í far­angri ákærða við komu hans til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar, seg­ir í dómn­um.

Ákærði neitaði sök í mál­inu en framb­urður hans við yf­ir­heyrsl­ur tók breyt­ing­um. Í fyrstu sagðist hann hafa komið hingað til lands sem ferðamaður og að hann væri ljós­mynd­ari. Hann kvaðst ætla að fara á snjó­bretti, í Bláa lónið og skoða norður­ljós­in og hvali. Hann neitaði því að hafa vitað af fíkni­efn­um sem fund­ust í ferðatösku hans, en efn­in voru fal­in í brús­um fyr­ir munnskol, sápu, krem og tann­krem.

Ákærði kvaðst ekki eiga snyrti­vör­urn­ar og sagðist ekki hafa vitað af þeim. Hélt ákærði því fram að ein­hver hefði sett efn­in í ferðatösku hans á hót­eli þar sem hann dvaldi í Rio de Jan­eiro eða á flug­vell­in­um þar. Við síðari yf­ir­heyrslu breytti maður­inn framb­urði sín­um og hélt því fram að maður sem væri kallaður „Þjóðverj­inn“ hefði sett efn­in í tösku hans á heim­ili vin­ar hans, kvöldið áður en hann hélt til Rio de Jan­eiro.

Ákærði setti fram þá kenn­ingu að „Þjóðverj­inn“ hefði sett efn­in í tösku ákærða til að koma hon­um í vand­ræði, vegna þess að „Þjóðverj­inn“ hafi verið öf­und­sjúk­ur út í ákærða vegna þess að hann væri að fara í nám í Kali­forn­íu.

Við ákvörðun refs­ing­ar var litið til þess að um mikið magn hættu­legra fíkni­efna var að ræða. Óljóst er hvort ákærði var svo­kallað burðardýr eða hvort hann hafi verið annað og meira. Þótti dóm­in­um þriggja og hálfs árs fang­elsis­vist því hæfi­leg refs­ing.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert