Þrjú og hálft ár fyrir kókaínsmygl

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær brasilískan karlmann í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Honum er gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á samtals 1.950 ml af kókaíni sem hafði 69% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Fíkniefnin flutti ákærði til Íslands, sem farþegi með flugi frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar, og fundu tollverðir þau í fjórum brúsum undir snyrtivörur í farangri ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar, segir í dómnum.

Ákærði neitaði sök í málinu en framburður hans við yfirheyrslur tók breytingum. Í fyrstu sagðist hann hafa komið hingað til lands sem ferðamaður og að hann væri ljósmyndari. Hann kvaðst ætla að fara á snjóbretti, í Bláa lónið og skoða norðurljósin og hvali. Hann neitaði því að hafa vitað af fíkniefnum sem fundust í ferðatösku hans, en efnin voru falin í brúsum fyrir munnskol, sápu, krem og tannkrem.

Ákærði kvaðst ekki eiga snyrtivörurnar og sagðist ekki hafa vitað af þeim. Hélt ákærði því fram að einhver hefði sett efnin í ferðatösku hans á hóteli þar sem hann dvaldi í Rio de Janeiro eða á flugvellinum þar. Við síðari yfirheyrslu breytti maðurinn framburði sínum og hélt því fram að maður sem væri kallaður „Þjóðverjinn“ hefði sett efnin í tösku hans á heimili vinar hans, kvöldið áður en hann hélt til Rio de Janeiro.

Ákærði setti fram þá kenningu að „Þjóðverjinn“ hefði sett efnin í tösku ákærða til að koma honum í vandræði, vegna þess að „Þjóðverjinn“ hafi verið öfundsjúkur út í ákærða vegna þess að hann væri að fara í nám í Kaliforníu.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um mikið magn hættulegra fíkniefna var að ræða. Óljóst er hvort ákærði var svokallað burðardýr eða hvort hann hafi verið annað og meira. Þótti dóminum þriggja og hálfs árs fangelsisvist því hæfileg refsing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert