Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að brasilískur karlmaður, sem hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, sæti gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir og mál hans sætir meðferð fyrir Hæstarétti, komi til þess, en eigi lengur en til 11. október.
Manninum er gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á samtals 1.950 ml af kókaíni sem hafði 69% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Hann flutti kókaín til Íslands, sem farþegi með flugi frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar, og fundu tollverðir þau í fjórum brúsum undir snyrtivörur í farangri ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar.
Í úrskurðinum segir að Hæstiréttur fallist á það með héraðssaksóknara að ætla megi að dómfelldi muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu fari hann frjáls ferða sinna.