Brasilíumaðurinn dæmdur í gæsluvarðhald

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að bras­il­ískur karl­maður, sem hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fang­elsi fyr­ir stór­fellt fíkni­efna­laga­brot, sæti gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir og mál hans sætir meðferð fyrir Hæstarétti, komi til þess, en eigi lengur en til 11. október. 

Manninum er gefið að sök að hafa staðið að inn­flutn­ingi á sam­tals 1.950 ml af kókaíni sem hafði 69% styrk­leika, ætluðu til sölu­dreif­ing­ar hér á landi í ágóðaskyni. Hann flutti kókaín til Íslands, sem farþegi með flugi frá Amster­dam í Hollandi til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar, og fundu toll­verðir þau í fjór­um brús­um und­ir snyrti­vör­ur í far­angri ákærða við komu hans til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar. 

Í úrskurðinum segir að Hæstiréttur fallist á það með héraðssaksóknara að ætla megi að dómfelldi muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu fari hann frjáls ferða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert