Tíu vilja stýra Jafnréttisstofu

Kristín Ástgeirsdóttir lætur í haust af störfum sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.
Kristín Ástgeirsdóttir lætur í haust af störfum sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tíu sóttu um embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu á Akureyri sem velferðarráðuneytið auglýsti laust til umsóknar 24. júní síðastliðinn.

Kristín Ástgeirsdóttir lætur í haust af störfum sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu að eigin ósk en hún hefur gegnt embættinu síðan 1. september 2007. Kristín segir aðspurð að í haust verði 10 ár liðin síðan hún tók við embættinu og sér finnist þetta vera orðið gott. Kristín hyggst snúa sér að öðrum verkefnum, aðallega tengdum sagnfræði. Hún mun jafnframt flytja búferlum til Reykjavíkur.

Umsækjendur um embætti framkvæmdastjóra eru eftirtaldir:

Anna Bryndís Sigurðardóttir, sérfræðingur á fjölskyldusviði Akureyrarbæjar 
Arndís Bergsdóttir, MA í safnafræði 
Guðrún Ósk Þorbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Atlantshafsbandalaginu 
Halla Gunnarsdóttir, fyrrv. skrifstofustjóri Women's Equality Party 
Hákon Þór Elmers, BS í viðskiptalögfræði 
Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara 
Katrín Björg Ríkarðsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra 
Sara Dögg Svanhildardóttir, ráðgjafi í menntamálum 
Sigurður Guðjónsson, aðjúnkt við viðskiptadeild HA
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur hjá BSRB.

Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Ráðgefandi hæfnisnefnd, skipuð þremur einstaklingum, mun meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð til félags- og jafnréttismálaráðherra. Nefndin starfar samkvæmt reglum um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu velferðarráðuneytisins.

Jafnréttisstofa var stofnuð á Akureyri í september 2000. Þá var miðstöð jafnréttismála á vegum ríkisins flutt frá Reykjavík til Akureyrar.

Auk Kristínar hafa þær Valgerður H. Bjarnadóttir og Margrét María Sigurðardóttir stýrt stofnuninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert