„Hann hefur lagt sig 110% fram í vinnu,“ segir Kristinn Pálsson, vinnuveitandi nígeríska hælisleitandans Sunday, í samtali við mbl.is. Sunday, eiginkonu hans Joy og átta ára gamalli dóttur þeirra, Mary, verður vísað úr landi en þau sóttu um hæli hér á landi og dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Fjölskyldan hefur búið hér á landi í eitt og hálft ár en konan var fórnarlamb mansals í Evrópu áður en þau komu hingað. Maðurinn er búinn að vera í vinnu hjá sama byggingarfyrirtækinu allan tímann og Mary gengur í skóla hér á landi og talar íslensku.
Kristinn bendir á að maðurinn búi á Suðurnesjum og komi alltaf með strætó til vinnu. „Ef við erum að vinna í Reykjavík er hann fyrstur á verkstað og alls staðar þar sem hann vinnur. Hann er algjörlega til fyrirmyndar með mætingar, hefur aldrei verið veikur og eina vesenið er að hann er að berjast fyrir landvistarleyfinu sínu.“
Fjölskyldan sótti um hæli hér á landi og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Fyrst var niðurstaðan sú að þau væru í of viðkvæmri stöðu til að vera send aftur til Ítalíu og skyldu því fá efnislega meðferð á Íslandi. Síðar var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að þau gætu snúið aftur til Nígeríu og hefur kærunefnd útlendingamála staðfest þá ákvörðun. Þeim verður því vísað úr landi.
„Á meðan okkur vantar vinnuafl er verið að að vísa þessum manni úr landi. Hann hefur lagt sig 110% fram í vinnu, hefur barist fyrir lífi sínu og vill vera hérna,“ segir Kristinn og botnar lítið í niðurstöðu Útlendingastofnunar.
„Það er mjög mikil þversögn í þessu. Hann er viljugur til verka og hörkuduglegur strákur.“
Boðið hefur verið til opins fundar til stuðnings fjölskyldunni. Fundurinn fer fram á annarri hæð kaffihússins Stofunnar í dag klukkan 17.30.