Gjaldtaka er hafin við Seljalandsfoss. Rukkað er á bílastæðinu við fossinn og er sólarhringsgjald fyrir hvern bíl 700 krónur en 3 þúsund fyrir rútur. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að gjöldunum sé ætlað að standa straum af kostnaði við uppbyggingu innviða við fossinn.
„Sveitarfélagið hefur frá árinu 2002 lagt um 30 milljónir í starfsemina við Seljalandsfoss án þess að fá tekjur á móti. Við höfum lengi beðið eftir að ríkisvaldið kæmi með einhverjar lausnir á þessu máli en ákváðum í samvinnu við landeigendafélag Seljalandsfoss að innheimta þjónustugjöld á þessu svæði,“ segir Ísólfur.
Ekki náðist í fulltrúa landeigendafélagsins við vinnslu fréttarinnar.