Lögreglan hefur handtekið manninn sem grunaður er um að hafa kveikt í bifreið hjá Vogi nærri Stórhöfða í gær. Þegar lögregla fann manninn hafði hann reynt að kveikja í mottu í fjölbýlishúsi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fannst maðurinn í Breiðholtinu um kvöldmatarleytið í gær þar sem hann reyndi að kveikja í mottu í fjölbýlishúsi í Vesturbergi. Hann hafði stungið af frá vettvangi en með hjálp sjónarvotta var fundið út hver hann væri.
Tekin verður skýrsla af manninum í dag en ekki er vitað hvað honum gekk til.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað að bifreið hjá Vogi eftir að eldur kom þar upp í gærdag. Bifreiðin varð alelda og er gjörónýt en einnig kviknaði í annarri bifreið sem stóð við hlið hennar. Sú var í eigu starfsmanns á Vogi.