Sumarveðrið í hámarki

Tjaldsvæðið í Húsafelli. Hiti á landinu mældist hæstur í Húsafelli …
Tjaldsvæðið í Húsafelli. Hiti á landinu mældist hæstur í Húsafelli í dag 24,9 stig. Ljósmynd/Facebook-síða Húsafells

Sumarveðrið er í hámarki þessa dagana og um að gera að njóta, segir vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hæstur hiti á landinu mældist í Húsafelli í dag, 24,9 gráður, en hiti fór einnig yfir 24 gráður á Reykjum í Fnjóskadal og Ásgarði og í Svartárkoti, Kröflu og á Möðrudal var hann vel yfir 22 gráðum.

Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur á vakt, segir veður verða áfram með svipuðu móti á morgun og miðvikudag. Á miðvikudag verður austlæg áttin þó ákveðnari og síðan fer yfir í norðlægar áttir á fimmtudag og mun kólna því samhliða. Það verður þó hvasst undir Eyjafjöllum á morgun og miðvikudag.

„Það verður þokkalegt veður áfram suðvestanlands,“ segir Þorsteinn. „Það mun sjá til sólar á morgun víða um land,“ bætir hann við og segir von á 24 stiga hita þar sem heitast er. „Það er helst úti við austurströndina sem gæti verið þokuloft. Eins verður víða bjart á fimmtudaginn.“

Með norðanáttinni á fimmtudag megi þó búast við að það kólni fyrir norðan. „Það verður frekar hins vegar hlýtt hérna sunnanlands og hér verður hitinn í kringum 20 stig,“ segir Þorsteinn og kveður hitastigið síðan líklega lækka niður í 18 stig um helgina.

Norðanáttin mun að öllum líkindum haldast fram yfir helgina.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert