Gjaldheimtan „tímabundin aðgerð“

Gjaldheimta hófst á bílastæðunum við Seljalandsfoss um helgina.
Gjaldheimta hófst á bílastæðunum við Seljalandsfoss um helgina.

„Í raun og veru lít­um við á þetta sem tíma­bundna aðgerð og auðvitað helg­ast fram­haldið svo­lítið af því hvað rík­is­valdið ger­ir í þess­um efn­um og við höf­um nátt­úr­lega lengi verið að bíða eft­ir því,“ seg­ir Ísólf­ur Gylfi Pálma­son, sveit­ar­stjóri Rangárþings, í sam­tali við mbl.is.

Gjald­taka hófst á bíla­stæðunum við Selja­lands­foss um helg­ina en að sögn Ísólfs ligg­ur ekki ná­kvæm­lega fyr­ir að svo stöddu hvernig fénu sem heimt verður með gjald­tök­unni verður ráðstafað, að öðru leyti en því að því verði varið til upp­bygg­ing­ar á svæðinu.

„Meðan að ástandið er eins og það er þá höf­um við gripið til þess­ara aðgerða, meðal ann­ars vegna þess að það er svo nauðsyn­legt fyr­ir okk­ur að byggja upp innviðina þarna við foss­inn,“ seg­ir Ísólf­ur Gylfi.

Ákvörðun um ráðstöf­un ligg­ur ekki fyr­ir

Spurður hvernig standi til að ráðstafa fénu sem inn­heimt verður með gjald­tök­unni seg­ir Ísólf­ur Gylfi enga ná­kvæma áætl­un um það liggja fyr­ir enn þá. Sveit­ar­fé­lagið hafi hingað til borið nán­ast all­an kostnað við foss­inn en nú verði al­farið unnið í sam­starfi við land­eig­enda­fé­lagið.

Nefn­ir hann meðal ann­ars göngu­stíga, bíla­stæði og sal­ern­isaðstöðu sem úr þurfi að bæta en for­gangs­röðun verk­efna verði ákvörðuð í sam­ráði við land­eig­end­ur sem viti bet­ur hvar þörf­in er brýn­ust. Í þess­ari viku stend­ur til að hefja viðgerðir á göngu­stíg­um.

„Við höf­um verið reynd­ar að bæta ör­lítið sal­ern­isaðstöðuna núna hjá okk­ur að und­an­förnu en í raun er svo margt sem þarf að gera þarna upp á upp­bygg­ing­una,“ seg­ir Ísólf­ur Gylfi. „Menn eru al­veg sam­stíga um það að til þess að geta lag­fært þarna ákveðna hluti þá verðum við með ein­hverju móti að afla fjár til þess.“

Leggja bíln­um og fara í Þórs­mörk

Sól­ar­hrings­gjald fyr­ir bíla­stæði við foss­inn er 700 krón­ur fyr­ir bíl en 3.000 krón­ur fyr­ir rútu. Að sögn Ísólfs var gjaldið ákv­arðað í sam­ræmi við bíla­stæðagjöld á öðrum vin­sæl­um ferðamanna­stöðum, til að mynda á Þing­völl­um. Gjaldið er greitt í stöðumæl­um á svæðinu og að sögn Ísólfs munu land­eig­end­ur sem ann­ast ann­an rekst­ur á svæðinu einnig hafa eft­ir­lit með mæl­un­um.

Að sögn Ísólfs hef­ur verið sótt um styrki í fram­kvæmda­sjóð ferðamála til upp­bygg­ing­ar innviða á svæðinu við foss­inn en ekki hafi feng­ist styrk­ir til fram­kvæmda við bíla­stæðin sem þarfn­ist úr­bóta. Þá eigi fólk sem legg­ur leið sína inn í Þórs­mörk það til að leggja bíl­um sín­um við foss­inn og geyma þar jafn­vel svo dög­um skipti og er gjaldið sé ekki síður hugsað til að sporna við því að sögn Ísólfs.

Ekki náðist í full­trúa land­eig­enda­fé­lags­ins við vinnslu frétt­ar­inn­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert