Fordæmalaus fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hérlendis hefur leitt til þess að umsvif Rauða krossins hafa aukist töluvert, en Rauði krossinn sinnir talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur á grundvelli samnings við ríkið.
Ríkið veitti 731 milljón króna til Rauða krossins í fyrra og jókst það framlag um 357 milljónir frá árinu 2015, samkvæmt ársskýrslu félagsins.
„Samningurinn sem Rauði krossinn er með við íslenska ríkið um að sinna talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur skýrir að mestu leyti aukið umfang,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins í Morgunblaðinu í dag. Heildarfjöldi hælisumsókna hérlendis var 1.132 í fyrra og er það nær þreföldun síðan árið 2015.