Hlýtt var á Norður- og Austurlandi um helgina og hiti fór sums staðar í 25 gráður, m.a. í Hallormsstaðarskógi í gær. Víða var hiti á bilinu 20-25 gráður þegar mest lét.
Þá kemur fram á bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings að sl. laugardagur hafi verið hlýjasti dagur ársins, en þá var meðalhiti í byggð 13,2 stig.
„Hér eru 25 stig, blankalogn og glampandi sól,“ sagði Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað, við mbl.is í gær og taldi hún að inni í skóginum hefði hitinn líklega verið enn meiri.
Veðurblíðan hafði það í för með sér að flestöll tjaldsvæði á Norður- og Austurlandi voru yfirfull. Þannig voru um 600-700 manns á Hallormsstað í gær.