Hitamet sumarsins slegið með 27,7 gráðum

Frábært veður hefur verið um allt land. Á Húsavík var …
Frábært veður hefur verið um allt land. Á Húsavík var enn einn veðurblíðudagurinn, þar sem hitinn fór hæst í 24,2 gráður. Ungir Húsvíkingar sjást hér að stökkva í höfnina. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hitamet sumarsins féll í dag, þegar 27,7 gráður mældust á Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Hiti hefur ekki mælst jafnhár frá því árið 2012, þegar hann mældist 28 gráður, samkvæmt upplýsingum frá vakt­haf­andi veður­fræðing­i á Veður­stofu Íslands.

Í dag er hlýjast í innsveitum á Norður- og Vesturlandi og víða er léttskýjað. Á Ásbyrgi og Tjörnesi í Gerðibrekku mældist 26,5 stiga hiti og á Reykjum í Fnjóskadal mældist 25,9 stiga hiti. Við austurströndina eru aftur á móti einhverjir þokkubakkar og einnig er örlítið skýjað á Suðausturlandi.

Hitamet sumarsins féll í dag, þegar 27,7 gráður mældust á …
Hitamet sumarsins féll í dag, þegar 27,7 gráður mældust á Végeirsstöðum í Fnjóskadal. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Samkvæmt upplýsingum frá Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðingi á vakt, mun veður verða áfram með svipuðu móti á morgun en svo fari það kólnandi. „Það er aðeins norðaustlægari vindur á morgun,“ segir Helga.

„Það verður bjartara í Reykjavík og ég vona að það verði aðeins bjartara yfir en við náum ekki svona miklum hita þar sem við eigum von á hafgolu,“ bætir hún við. Í Reykjavík er því spáð að hámarki 18 gráðum.

Næstu daga er spáð norðaustlægum vindi áfram og einnig að það haldist bjart í Reykjavík fram yfir helgi með köflum.

Veður­vef­ur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka