Brotið úr Berlínarmúrnum, sem stendur skammt frá Höfða, er nú í endurgerð. Upprunalega verkið hefur verið fjarlægt og brotið grunnað. Listamaður verksins er nú á leiðinni til landsins til að mála það á ný. Þá verður það málað með íslenska veðráttu frekar í huga.
Verulega var farið að sjá á brotinu sem Reykjavíkurborg fékk að gjöf frá listamiðstöðinni Neu West Berlin árið 2015. Myndin stendur við Borgartún í Reykjavík og er eftir þýska götulistamanninn Jakob Wagner. Verkið er ekki frá tímum múrsins, heldur var það unnið miklu seinna.
Að sögn Sigurðar Trausta Traustasonar, deildarstjóra safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur, þoldi verkið illa íslenska veðráttu. „Það var ekki séns að laga verkið, það þurfti algjörlega að endurgera það,“ segir Sigurður. Verkið sé nálægt sjónum og Wagner hafi ekki gert verkið með íslenskt veður í huga.
Búið er að fjarlægja upprunalega verkið og grunna brotið með hvítri málningu. Því næst mun listamaðurinn mála það frá grunni aftur. Að sögn Sigurðar verður svo lakkað vel yfir svo myndin haldist betur í íslensku veðri. „Þetta verður gert svo þetta þoli betur aðstæðurnar sem það er í,“ segir hann. „Þá verður ekki eins fljótlega viðhaldsþörf á verkinu.“