Flokkur fólksins er orðinn stærri en bæði Viðreisn og Björt framtíð samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR á fylgi stjórnmálaflokka. Flokkurinn mælist með 6,1 prósents fylgi í könnuninni og hækkar mikið frá síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 2,8 prósent. Viðreisn mælist með 4,7 prósenta fylgi og Björt framtíð með 2,4 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem áður stærsti flokkur landsins með 29,3 prósent og bætir við sig tæpu prósentustigi milli kannana. Vinstri hreyfingin – grænt framboð minnkar lítillega við sig og er nú með 20,4 prósent. Píratar standa í stað með 13,3 prósenta fylgi og Samfylkingin bætir við sig einu og hálfu prósentustigi og mælist nú með 10,6 prósent. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,6 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 34,1 prósent samanborið við 33,9 prósent í síðustu könnun. Könnunin var framkvæmd dagana 18. til 21. júlí og tóku 909 einstaklingar þátt í könnuninni.