Töskur 200 skáta týndust

Alls taka 5.142 skátar frá um 100 löndum þátt í …
Alls taka 5.142 skátar frá um 100 löndum þátt í mótinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Töluverð óvissa skapaðist í dag hjá hátt í tvö hundruð skátum á alþjóðlega skátamótinu World Scout Moot sem enn áttu eftir að fá farangur sinn afhentan. Útilegur vítt og breitt um landið hófust í dag, en þar sem útilegubúnaður skátanna er í töskunum var erfitt fyrir þá að fara af stað í ferðirnar. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Hrönn Pétursdóttir mótsstjóri segir í samtali við mbl.is að unnið sé nú að því að finna farangur skátanna á Keflavíkurflugvelli og koma honum til þeirra. 

„Fólk er samt farið út á land í mörgum tilvikum svo við þurfum að fara með þetta á hina ýmsu staði. Það verður smávinna og einhver kostnaður, en það sem mestu máli skiptir er að fólk hafi farangurinn sinn,“ segir hún og bætir við að stór hluti skátanna komi frá löndum þar sem er mun heitara en á Íslandi. „Það er ekki þægilegt að vera farangurslaus í öllu falli og hvað þá í þessum aðstæðum.“

Hún segist þó vonast til þess að málið sé að leysast farsællega. Engar skýringar hafa borist á seinkun á afhendingu farangursins. Þá segir hún að enn eigi eftir að koma í ljós hvort einhver farangur eigi eftir að skila sér til landsins.

„Einhver farangur er víst enn fastur erlendis og það var einn hópur hjá okkur sem fékk þær upplýsingar að það gæti tekið fjóra til fimm daga að koma honum hingað,“ segir hún. Búnaður sem íslenska skátahreyfingin eigi til að bregðast við ástandi sem þessu geti hins vegar farið til þeirra skáta. „Ef þetta eru nokkrir einstaklingar getum við bjargað því en tvö hundruð var mjög mikið.“

Tilkynningar um týndar töskur fóru að berast þegar erlendu gestirnir komu til landsins fyrir tveimur dögum. Um 5.200 manns frá um 100 lönd­um taka þátt í mót­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert