Dæmi eru um að verktakar hafi gefist upp á skipulagsyfirvöldum í Reykjavík og tekið ákvörðun um að hætta uppbyggingu í miðborginni.
Ástæðan er miklar og ítrekaðar tafir á afgreiðslu mála. Geðþótti starfsmanna hafi valdið fyrirtækjum miklu fjárhagslegu tjóni. Þessi óánægja birtist í bréfi Samtaka iðnaðarins til aðstoðarmanns Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í maí. Þar var óskað eftir fundi og er fundarboðs enn beðið.
Samtök iðnaðarins benda á að rúmlega helmingi mála hafi verið frestað hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík 2015. Það hafi aftur kostað fjölda fyrirtækja mikið fé. Samtökin gagnrýna „óviðeigandi athugasemdir“ sem tefji mál.
Umsvifamikill verktaki, sem ræddi við blaðið gegn því að koma ekki fram undir nafni, sagðist hættur að byggja í miðborginni. „Stór hluti af starfsfólkinu [hjá byggingarfulltrúa] ræður ekki við sína vinnu. Oft og tíðum eru menn að misfara með vald sitt,“ sagði verktakinn m.a. um ástandið.
Veitingamaður sem ræddi við Morgunblaðið í trausti nafnleyndar sagðist mundu vera orðinn gjaldþrota ef hann ætti ekki öfluga bakhjarla. Vegna athugasemda um atriði sem engu máli skipta hafi fyrirtæki hans tapað tugmilljóna veltu.