Verði dýpið til vandræða geti ferjan aðstoðað

Gunnlaugur segir að verði dýpið við Landeyjarhöfn til frekari vandræða …
Gunnlaugur segir að verði dýpið við Landeyjarhöfn til frekari vandræða geti ferjan aðstoðað við fólksflutning til Vestmanneyja. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Að sögn rekstrarstjóra Eimskips, Gunnlaugs Grettissonar, getur ferjan Akranes höndlað dýpið við Landeyjarhöfn jafnvel betur en Herjólfur. Undanfarið hafi dýpið á svæðinu minnkað og því hafi Herjólfur þurft að fresta ferðum.

Þá geti ferjan aðstoðað um verslunarmannahelgina, ef þörf krefur. Eimskip hafi nýlega látið Samgöngustofu vita af þessu en hann geti ekki sagt til um hvort það breyti nokkru. Gunnlaugur segist auk þess ekki átta sig á því af hverju ferjunni var meinað að sigla leiðina.

Akranesferjan  hefur verið í tilraunasiglingum milli Akraness og Reykjavíkur í sumar. Samgöngustofa hafnaði nýlega beiðni Eimskips um að fá að sigla ferjunni til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgina. Var beiðninni hafnað á þeim forsendum að ferjan uppfylli ekki kröfur til að sigla leiðina. Leiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar tilheyrir aftur á móti sama hafsvæði og föst leið ferjunnar milli Akraness og Reykjavíkur; hafsvæði C.

Ristir minna en Herjólfur

Í samtali við mbl.is segir Gunnlaugur að dýpið í Landeyjarhöfn hafi undanfarið verið til vandræða.

„Dýpið hefur grynnkað og við erum að fella niður ferðir hjá Herjólfi út af því núna. Felldum meira að segja fjórar ferðir niður í gær,“ segir hann. Óvíst sé hvort dýpið haldi áfram að minnka fyrir Þjóðhátíð en í þeim aðstæðum gæti Akranes flutt fólk á milli. Ferjan höndli dýpið betur en Herjólfur enda aðeins farþegaskip. „Hún ristir miklu, miklu minna enda miklu minna skip,“ segir Gunnlaugur. Herjólfur risti 4,3 metra en ferjan aðeins 1,5 metra.

Ferjan geti því aðstoðað ef til þess kæmi.

„Það er nýtilkomið og hafði svo sem ekkert með þessa tilteknu ósk að gera en það gat verið aukaafurð að fá þessa heimild; að geta þá aðstoðað ef það kæmi til þess,“ segir Gunnlaugur. Að hans sögn hefur Eimskip upplýst Samgöngustofu um dýpið. Hann segist þó ekki gera sér grein fyrir hvort það hafi einhver áhrif á umsókn þeirra.

Vita ekki hvað vantar upp á

Gunnlaugur segist ekki vita hvaða skilyrði vanti upp á til að fá að sigla. „Ég taldi að þar sem að við værum komin með heimild til að sigla á þessu hafsvæði að það væri þá fyrst og fremst ákveðið formsatriði að tilkynna að við værum að fara sigla þarna,“ segir Gunnlaugur. „Við vitum ekki alveg hvað það er sem hún er ekki að uppfylla. Við eigum eftir að fá það fram,“ bætir hann við.

Að sögn Gunnlaugs þótti honum afar leitt að fá ekki að sigla leiðina, þar sem það hefði verið spennandi að sjá hvernig bátur sem þessi, sem væri ákaflega vel búinn, tæki sig út við hlið Herjólfs. Það geti vel verið að það verði hluti af framtíðarsamgöngum landsins.  

Í svari Samgöngustofu til mbl.is segir að ferjan hafi verið skráð á Íslandi á þeim forsendum að um tímabundið tilraunaverkefni væri að ræða á afmarkaðri siglingaleið. Ástæða þess að ferjan fái ekki að sigla sé að hún uppfylli ekki allar viðeigandi kröfur fyrir háhraðaför, sem séu innleiddar í íslenskan rétt með EES-samningnum. Tilgreindi Samgöngustofa ekki nánar hvaða kröfur það væru. 

Uppfært kl. 15.39:

mbl.is hefur borist eftirfarandi svar frá Samgöngustofu um það hvaða kröfur það eru sem Akranes uppfyllir ekki til að sigla milli lands og Eyja.

„Skipið er ekki með s.k. háhraðaskírteini (High Speed Certificate) sem vísar í alþjóðlegar kröfur um háhraðaför. Það varðar ýmsan búnað. Þær kröfur eru mismunandi eftir því hvenær skipin (háhraðaför í þessu tilviki) eru smíðuð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert