Baráttan gegn stafrænu kynferðisofbeldi

Aðstandendur Druslugöngunnar vilja útrýma orðinu hefndarklám sem hefur verið töluvert á kreiki undanfarið. Þeir vilja orða hlutina eins og þeir eru; stafrænt kynferðisofbeldi. Enda feli hefndarklám í sér að þolandi hafi gert geranda eitthvað til miska og hann eigi harma að hefna – rétt eins og slíkt réttlæti stafrænt kynferðisofbeldi. Í Druslugöngunni í ár er sérstök áhersla lögð á baráttu gegn glæp í mörgum myndum.

Trúlega eru fáir núorðið sem fara í grafgötur með fyrir hvað Druslugangan stendur. Þessi samstöðuganga með brotaþolum kynferðisofbeldis verður gengin í sjöunda sinn á morgun. Lagt verður af stað frá Hallgrímskirkju kl. 14 og þaðan gengið sem leið liggur niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Austurstræti og staðnæmst á Austurvelli þar sem lærðir og leikir taka til máls og tónlistin dunar á réttum augnablikum.

Helga Lind Mar, ein af ellefu í skipulagskjarna Druslugöngunnar, hefur haft í mörg horn að líta síðustu dægrin. Raunar segir hún að undirbúningurinn standi yfir árið um kring því fljótlega eftir að einni göngunni lýkur er lagt á ráðin fyrir þá næstu að ári. „Fyrstu dagana á eftir erum við þó í smálægð. Allir þurfa tíma til að jafna sig því það tekur mikið á að lifa og hrærast í heimi kynferðisofbeldis, ef svo má að orði komast, heyra reynslusögur og fjalla endalaust um málið frá öllum hliðum,“ segir hún.

Eins og undanfarin ár er meginmarkmið Druslugöngunnar að losa þolendur undan skömminni sem kynferðislegt ofbeldi skilur eftir sig og skila henni þangað sem hún á heima; til gerendanna. Helga Lind segir að mikil árangur hafi náðst í baráttunni gegn orðræðunni um að ofbeldið geti verið þolendum að kenna.

„Fyrir nokkrum árum voru viðbrögðin oft á þann veg að klæðaburður, háttaleg eða eitthvað sem fólk gerði byði því heim að það væri beitt kynferðisofbeldi. Þótt slíkra viðhorfa gæti enn í samfélaginu, erum við komin töluvert langt frá þess háttar pælingum í almennri umræðu. Hins vegar erum við að mörgu leyti á sama stað varðandi stafrænt kynferðisofbeldi. „Hún eða hann hefði ekki átt að vera að senda þessa myndir“ er gjarnan viðkvæðið þegar nektarmyndir í einkaeigu fara eins og eldur í sinu um netheima, algjörlega í óþökk þess sem myndin er af.“

Stóri glæpurinn

Helga Lind segir að áherslur Druslugangna liðinna ára hafi ekki snúist um baráttu gegn ákveðinni tegund kynferðisofbeldis, en að þessu sinni hafi þótt nauðsynlegt að leggja áherslu á og taka umræðuna um stafrænt kynferðisofbeldi. „Göngufólk krefst þess að dómstólar og samfélagið taki afstöðu og líti á stafrænt kynferðisofbeldi með sama hætti og önnur ofbeldisbrot. Við viljum útrýma orðum eins og hefndarklám og hrelliklám sem höfð eru yfir stafrænt kynferðisofbeldi. Með því að tala um hefndarklám gefum við í skyn að gerandinn sé að hefna sín vegna einhvers sem þolandinn gerði honum til miska. Um leið erum við að samþykkja að hefnd, sem felst í kynferðisofbeldi, sé réttlætanlegt.“

Glæpurinn er að sögn Helgu Lindar ekki sá að taka af sér nektarmynd og senda hana til kærastans/kærustunnar eða þess sem viðkomandi kýs að fái myndina í hendur. Annað sé uppi á teningnum þegar farið sé að dreifa myndunum í leyfisleysi – það sé stóri glæpurinn. „Líka þegar frægar manneskjur eigi í hlut,“ segir Helga Lind og tekur dæmi sem sýna að sumir geri sér ekki endilega grein fyrir þegar þeir fremja stafrænt kynferðisofbeldi.

Justin Bieber berskjaldaður

„Fyrir ekki svo löngu tók laumuljósmyndari nektarmynd af Justin Bieber þar sem hann var á einkalóð í fríi á Balí. Myndin birtist í fjölmiðlum víða um heim, meðal annars hérlendum, sem reyndar afmáðu typpið, en létu fylgja hlekk á upprunalegu myndina. Með því að gefa fólki tækifæri til að klikka á hlekkinn tóku fjölmiðlar þátt í ofbeldinu og að sama skapi þeir sem opnuðu hlekkinn. Í stuttu máli viljum við benda á að þátttakendur í stafrænu kynferðisofbeldi eru þeir sem taka myndir af fólki í óþökk þess og dreifa sem og þeir sem skoða slíkar myndirnar og halda áfram að dreifa þeim.“

Helga Lind nefnir annað og nærtækara dæmi þegar myndband af pari í samförum á veitingastað hér í borg fór í dreifingu. „Klárt kynferðisofbeldi,“ segir hún og á vitaskuld við það athæfi að dreifa myndbandinu. „Um leið og sumir hneyksluðust á þeim sem tóku atferlið upp og dreifðu, skoðuðu þeir myndbandið og sýndu öðrum. Svona blasir tvískinnungurinn við.“

Sjálf er Helga Lind stórhneyksluð þegar ýjað er að því að eðlislæg forvitni mannanna ráði kannski einhverju um hegðun af þessu tagi. Hún fordæmir öll ummæli sem taka afstöðu með gerandanum – þeim sem dreifa myndunum. „Það er ekki eðlileg framvinda þess þegar samband súrnar að brjóta trúnað og dreifa nektarmyndum af fyrrverandi kærustu eða kærasta, eins og geðlæknir einn hélt fram í útvarpsviðtali á dögunum,“ segir hún og heldur áfram:

Daður allra tíma

„Ég er ekki viss um að stafrænt kynferðisofbeldi hafi aukist, en vissulega er umræðan meiri en áður. Það er ekkert nýtt af nálinni að fólk sendi af sér nektarmyndir, eða skiptist á nektarmyndum. Líklega hefur slíkt tíðkast allar götur frá því fólk fór að teikna myndir. Stundum er talað um nútímadaður, en í gömlum, rómantískum bíómyndum má sjá að hermenn eru oft með myndir af fáklæddum kærustum sínum innan seilingar.“

Helga Lind nefnir enn eitt dæmið um stafrænt kynferðisofbeldi þar sem reynt var að skella skömminni á þolandann. Íslendingur kom við sögu. „Rob Kardashian, bróðir hinna frægu Kardashian systra, tók myndir af kynfærum kærustu sinnar og deildi á samfélagsmiðlum eftir að þau voru hætt saman. Jafnframt lýsti hann hversu ógeðsleg konan væri í alla staði. Íslenskur bloggari tók undir hvert orð, dreifði myndunum og setti á bloggið sitt. Ef einhverjum þykir svona hegðun ásættanleg í samfélaginu, þarf að verða vitundarvakning, bregðast við og vekja athygli á þeim siðferðilegu villigötum við erum á. Við þurfum að berjast gegn kynferðisofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum,“ segir hún. „Og taka afstöðu gegn ofbeldinu með því að mæta í Druslugönguna,“ bætir hún við.

Gult eða appelsínugult?

Fánafélagið Upphátt beinir þeim tilmælum til Facebook-notenda að hafa hátt á Facebook dagana kringum Druslugönguna. Liður í því er að þeir skipti um prófílmyndir og merki þær með hashtag-inu #Höfumhátt. Appelsínugular myndir eru fyrir þá sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, gular fyrir þá sem þekkja manneskju sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi eða vilja sýna málstaðnum stuðning.

Að Fánafélaginu Upphátt stendur óháður hópur brotaþola sem hefur haldið tákninu á lofti frá árinu 2015. Hvatningarorð félagsins eru: Berjumst enn frekar gegn þöggun og stækkum rými þolenda. Berjumst fyrir réttlæti fyrir þolendur í réttarkerfinu. Látum ekki sussa á okkur – höfum hátt, hátt!

Myndirnar eru í prófílmyndum á síðu Fánafélagsins Upphátt á Facebook.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka