Ekki drukkið vegna áhrifanna

Jakob Jónsson er fjölfróður um viskí.
Jakob Jónsson er fjölfróður um viskí. Ljósmynd/Eva Vestmann

Akureyringurinn Jakob Jónsson er mögulega Íslendinga fróðastur um viskí. Hann hefur starfað í Royal Mile Whiskies á Bloomsbury Street frá því hann rak þar inn nefið fyrir níu árum, með litla þekkingu á viskíi en afskaplega fróðleiksfús. „Viskí hafði heillað mig lengi og mig langaði að læra meira um það og smakka sem flestar tegundir, en ég var alls enginn sérfræðingur í því þá.“

Þau hjónin, Jakob og Eva Vestmann, voru þá nýlega flutt til London, þar sem Eva nam grafíska hönnun við Central Saint Martins og Jakob var að litast um eftir vinnu. „Búðin í London er rétt hjá British Museum og einn daginn þegar við vorum að koma af safninu rákum við augun í hana og sáum að verið var að auglýsa eftir starfsmanni sem væri vel að sér um viskí. Ég var með ferilskrá meðferðis svo ég ákvað að demba mér þarna inn og kynnti mig fyrir þáverandi verslunarstjóranum og spjallaði aðeins við hann.“

Eitthvað hefur verslunarstjóranum litist vel á þennan unga Íslending því hann réð Jakob á staðnum og hafa þeir verið bestu vinir síðan. „Og þarna fékk ég alla þjálfun mína og fræðslu um viskí,“ segir Jakob, sem í dag er orðinn aðstoðarverslunarstjóri og þekkir viskíbransann í Bretlandi út og inn. „Ég er búinn að fara á alls konar námskeið og kynningar, læra að halda kynningar og er í beinu sambandi við alla helstu viskíframleiðendurna hér.“

Jakob heimsækir enskar, írskar og skoskar viskíverksmiðjur reglulega, fylgist náið með nýjungum, smakkar viskívísa og bíður spenntur eftir afrakstrinum. Hann segir viskímenningu nátengda matarmenningu; það sé ekki drukkið vegna áhrifa áfengisins heldur einungis bragðsins vegna og örfáir sopar, stundum bara einn lítill, dugi til að kalla fram ánægjuna sem felist í viskídrykkju.

Nánar er rætt við Jakob í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert