„Hví er verið að innheimta fyrir að geta nálgast það efni sem við nú þegar greiðum fyrir?“ spyr Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Í sumar lokaði Vodafone fyrir endurvarpsstöðvar sem hingað til höfðu dreift sjónvarpsútsendingum yfir örbylgju á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við stefnu og ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar. Við því voru ekki allri búnir, einkum margt eldra fólk, sem í gegnum árin hefur móttekið sjónvarpsútsendingar um örbylgjuloftnet.
Þrátt fyrir breytingarnar geta notendur áfram tekið við útsendingum um loftnet en til þess þarf UHF-loftnet í stað örbylgjuloftnets. Þá fá margir sjónvarpsútsendingar í gegnum net- og sjónvarpsáskriftarleiðir hjá fjarskiptafyrirtækjum en slíka þjónustu hafa ekki allir not fyrir að sögn Gísla.
Hann segir það að greiða þurfi aukalega fyrir þjónustu til að hafa aðgang að útsendingum Ríkisútvarpsins sé eins og ef innheimtir væru vegatollar vegna umferðar á þjóðvegum landsins. Þá hafi því verið ábótavant að breytingarnar væru kynntar fyrir notendum og oftar en ekki hafi eldra fólki verið beint í áskriftarleiðir og borgi fólk því gjarnan fyrir þjónustu sem það þurfi ekki á að halda.
„Mér finnst eins og það sé eiginlega verið að innheimta eins konar vegatolla af fólki,“ segir Gísli. „Við greiðum nú þegar í sköttum okkar fyrir Rúv, fyrir það að eiga möguleika á því að njóta sjónvarps- og útvarpssendinga, en eins og þetta er sett upp núna að þá þarf að greiða viðbótarkostnað sem er margfaldur kostnaðurinn við það raunverulega að ná eða njóta sjónvarpsefnisins,“ segir Gísli.
Áréttar hann að enn sé hægt að fá sjónvarpsútsendingar í gegnum annars konar loftnet en um það séu ekki allir meðvitaðir og greiði þess í stað há áskriftargjöld fyrir myndlykla og aðra þjónustu sem fylgi pakkanum, á sama tíma og það eina sem fólk leiti eftir sé að hafa aðgang að þjónustu sem það þegar greiði fyrir með útvarpsgjaldi.
„Með myndlyklunum er verið að setja ákveðið millistykki þarna á milli og það er verið að rugla þá raunverulega saman alls konar annarri þjónustu, allt öðrum pökkum, auðvitað er þetta þekkt í öllum bransa,“ segir Gísli.
„Ég held að þeir séu nú búnir að viðurkenna það eftir að ég hóf máls á þessu að það hefði átt að kynna þetta mikið betur,“ segir Gísli, en hann vakti athygli á málinu í samtali við Rúv fyrr í sumar. Í kjölfarið hafi Vodafone sagst hafa reynt eftir bestu getu að upplýsa notendur um breytingarnar en erfitt væri að tryggja að skilaboðin næðu til allra. Gísli gefur lítið fyrir þá útskýringu.
„Það er náttúrlega bara léleg afsökun, auðvitað veistu alveg hverjir eru áskrifendur þínir,“ segir Gísli. „Það hefði átt að kynna þetta miklu betur vegna þess að það var ekkert sem lá á að gera þetta og það eru til aðrar leiðir,“ bætir hann við.
Í frétt á vef Rúv í dag segir Gunnar Örn Guðmundsson, forstöðumaður tæknisviðs RÚV, að hægt sé að tryggja áframhaldandi aðgengi að útsendingum með lítilli fyrirhöfn. „Það þarf bara einfaldlega að skipta um loftnet, fá sér gamla góða UHF-greiðu,“ er haft eftir Gunnari Erni á vef Rúv.