Hundruð vilja í 12 ára afmæli

Hanyie er 11 ára flóttastúlka sem dreymir um að halda …
Hanyie er 11 ára flóttastúlka sem dreymir um að halda afmælið sitt á Íslandi. Ljósmynd/Kristín Ólafsdóttir

Hundruð manna hafa lýst yfir áhuga sínum á því að mæta í 12 ára afmæli Hanyie Maleki. Hún er 11 ára flóttastelpa frá Afganistan sem dreymir um að halda afmælið sitt á Íslandi. Hanyie á afmæli í október en sökum þess að til stendur að senda hana úr landi var ákveðið að blása til veislu í næstu viku.

Neitað um hæli

Guðmundur Karl Karlsson, einn aðstandenda veislunnar, kynnist Hanyie og Abrahim föður hennar fyrst um jólin í gegnum starf hjá Rauða krossinum. Hann kemst svo aftur í samband við þau fyrir tilviljun. „Þá kemst ég að því að hann er kominn með tvær neitanir og var synjað um að taka upp málið aftur,“ segir Guðmundur.  

Guðmundur kynntis Hanyie og föður hennar í desember og hafa …
Guðmundur kynntis Hanyie og föður hennar í desember og hafa þau brallað margt skemmtilegt saman. Ljósmynd/Ragna Engilbertsdóttir

Til stendur að senda feðginin úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Guðmundur segir dæmi sýna að ef feðginin verði send til Þýskalands liggi beinast við að þau verði send þaðan til Afganistans. „Það bíður þeirra bókstaflega ekkert, hún hefur aldrei komið þangað einu sinni,“ segir Guðmundur.

Með bros sem bræðir hjörtu

„Hún er alveg dásamleg stúlka. Hún er með bros sem bræðir öll hjörtu og stórkostlegur listamaður, allt sem hún tekur sér fyrir hendur gerir hún svo vel,“ segir Guðmundur. Stofnaður hefur verið Facebook-viðburður fyrir afmælisveisluna þar sem áhugasamir eru hvattir til að mæta og gleðjast með Hanyie á Klambratúni 2. ágúst klukkan 16:00. 

Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur í nafni Guðmundar þar sem hægt er að leggja inn aur í afmælisgjöf fyrir Hanyie. Ekki er mögulegt að stofna reikning í hennar eigin nafni og heldur Guðmundur því utan um reikninginn. Þeir sem vilja gefa Hanyie afmælisgjöf geta lagt inn á reikning: 0513-14-406615 á kennitölu 091082-5359.

Guðmundur er sjálfboðaliði hjá Solaris sem eru hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Samtökin standa fyrir undirskriftasöfnun þar sem þrýst er á Útlendingastofnun um að endurskoða mál feðginanna.

Hanyie og faðir hennar Abrahim við Gullfoss.
Hanyie og faðir hennar Abrahim við Gullfoss. Ljósmynd/ Abrahim Maleki

Uppfært kl. 09:08: Í fyrstu kom fram um væri að ræða 11 ára afmæli Hanyie en afmælið sem haldið verður upp á 2. ágúst er 12 ára afmælið hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert