Skátar í stökustu vandræðum í stormi

Alls taka 5.142 skátar frá um 100 löndum þátt í …
Alls taka 5.142 skátar frá um 100 löndum þátt í skátamótinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skátar sem eru hér á landi á fjölmennu skátamóti lentu í stökustu vandræðum vegna hvassviðris sem gekk yfir Suðurlandið í gær. Í Hveragerði leitaði hópur skáta inn í gróðurhús en á Selfossi fuku og eyðilögðust tugir tjalda hjá skátunum. Tjón á stórum tjöldum og búnaði hefur ekki enn verið metið. 

„Veðrið í gærkvöldi og nótt kom mörgum erlendum skátum á óvart, enda veðurhæðin meiri en þeir eiga að venjast í heimalöndum sínum. Í gærkvöldi voru tjaldbúðirnar á Selfossi teknar niður og allir fluttir í skóla í nágrenninu. Unnið er að því að flytja búðirnar á Úlfljótsvatn eftir dagskrá í kvöld enda koma allir 5.000 skátarnir á Úlfljótsvatn á morgun.“ Þetta er haft eftir Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdarstjóra Bandalags Íslenskra skáta, í tilkynningu. 

Framkvæmdaaðilar mótsins hafa unnið hörðum höndum í morgun við að aðstoða skátana við að fá nauðsynlegan viðlegubúnað, ýmist lánaðan eða keyptan. Vonir standa til að í kvöld verði búið að leysa þetta vandamál, segir jafnframt í tilkynningu. 

Allir 5.000 skátar koma saman við hátíðlega athöfn á Úlfljótsvatni á morgun, laugardag, kl. 20.

Skátarnir vinna að fjölbreyttum verkefnum í sjálfboðaliðastörfum víða um land. Þeir eru meðal annars við stígagerð við Seljalandsfoss og í Reykjadal svo fátt eitt sé nefnt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert