„Það er svo mikil skömm yfir þessu“

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir skömmina hafa verið það …
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir skömmina hafa verið það mikla að hann hafi ekki rætt kynferðisofbeldið. Hann rjúfi hins vegar nú þögnina vegna HöfumHátt-átaksins.

„Ég varð fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar ég var barn,“ segir Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is. Hann lýsti, ásamt fleiri karlkyns Pírötum, í dag yfir stuðningi við HöfumHátt, átak sem nú fer fram á samfélagsmiðlum þar sem þolendur kynferðisofbeldis setja appelsínugult merki sem mynd á Facebook og aðstandendur og vinir þeirra setja gula mynd til stuðnings þolendum.

Gunnar Hrafn var 5-6 ára þegar ofbeldið átti sér stað, en það stóð að hans sögn yfir í nokkurn tíma.

Gerandann segir hann hafa verið eldri einstakling sem nýtti sér aðgang sinn að börnum. „Fjölskyldan vissi ekki af þessu,“ segir Gunnar Hrafn og bætir við að maðurinn tengist fjölskyldu hans ekki á neinn hátt. Gunnar Hrafn sagði engum frá hvað gerðist. „Ég skildi í raun ekki hvað gerðist fyrr en ég varð eldri. Ef maður veit ekki hvað þetta er, þá veit maður ekki að það hafi veri brotið á sér fyrr en miklu seinna.“

„Þetta var bara ofbeldi“

Þetta var eitthvað sem maður bægði frá sér, jafnvel þegar maður var orðinn kynþroska og vissi hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Síðan einn góðan veðurdag þá situr maður uppi með þessa hugsun: Þetta var bara ofbeldi.“

Gunnar Hrafn segir ofbeldið óneitanlega hafa áhrif á sig. „Ég er þunglyndissjúklingur í dag og þetta hefur örugglega haft sitt að segja. Fólk leiðist oft út í þunglyndi, neyslu eða annað.“

Spurður hvort hann hafi rætt kynferðisofbeldið við sína nánustu, eða fjölskylduna, segist hann ekki hafa gert nóg af því. „Það er kannski leiðinlegt að einhverjir séu að frétta þetta svona, en ég hef bara aldrei treyst mér til að ræða þetta við neinn svona augliti til auglitis. Það er svo mikil skömm yfir þessu. Meira að segja við mína sálfræðinga hef ég lítið talað um þetta.“

Ákvað að taka þátt í að rjúfa þögnina

HöfumHátt-átakið hafi hins vegar hreyft við sér. „Þegar ég sá að mínir sampíratar voru að koma saman og reyna að rjúfa þessa þögn,“ segir hann.

Fram að því hafði Gunnar Hrafn aðeins trúað örfáum vinum fyrir ofbeldinu. „Þá aðallega fólki sem hafði líka orðið fyrir þessu,“ útskýrir hann. „Þegar ég sá að fólk var að koma út, sem líka hafði glímt við þessa hluti sem ég var að glíma við, þá ákvað ég að gera það líka.“

Kynferðisofbeldi þurfi að ræða opinskátt rétt eins og geðsjúkdóma.

Gunnar Hrafn segir ofbeldið óneitanlega hafa áhrif á sig. „Ég …
Gunnar Hrafn segir ofbeldið óneitanlega hafa áhrif á sig. „Ég er þunglyndissjúklingur í dag og þetta hefur örugglega haft sitt að segja. Fólk leiðist oft út í þunglyndi, neyslu eða annað.“

„Eins og ég sagði á sínum tíma þegar ég veiktist og þurfti að fara inn á geðdeild, þá finnst mér ég bera ábyrgð sem kjörinn fulltrúi og opinber persóna að ræða þessi mál af því að mér finnst að allir eigi að geta gert það.  Allir sem hafa komið að máli við mig eftir að ég ræddi mín andlegu veikindi hafa þakkað mér fyrir að rjúfa þögnina og mér finnst ekkert annað gilda um þetta,“ segir Gunnar Hrafn.

Vill að allir geti sagt frá

Sjálfur eigi hann margar góðar vinkonur sem hafi trúað sér fyrir kynferðisofbeldi sem þær hafi orðið fyrir. „Mér finnst óhugnanlegt að vera að ala upp barn í samfélagi þar sem þetta er að gerast. Ég vil ekki að  framtíðin verði eins og þegar ég var ungur, að það verði þagað um þetta. Ég vil að í framtíðinni geti allir sagt frá svona hlutum þegar þeir lenda í þeim. Að það sé ekki einhver þögn.“ 

Hvetja alla til að taka þátt í Druslugöngunni

Í yfirlýsingu karlkyns pírata sem birt var í dag lýsa þeir yfir stuðningi við Druslugönguna og hvetja sem flesta til að taka þátt í henni. „Það er mjög mikilvægt að styðja við þolendur kynferðisofbeldis, halda ábyrgðinni hjá gerendum og stuðla að vitundarvakningu um kynferðisafbrot. Við vonum að með þessu aukist skilningur á því hversu algeng þessi brot því miður eru og hversu margir Íslendingar glíma við alvarlegar afleiðingar vegna þeirra. Þessir samborgarar okkar eiga skilið að upplifa stuðning þegar þeir hafa opnað sig um ofbeldið og afleiðingar þess,“ segir í yfirlýsingunni.

Sérstaklega vilji þeir hvetja karlmenn til að taka þátt í átakinu. „Þar sem ekki einungis verða karlmenn líka fyrir kynferðisofbeldi, heldur eiga margir þeirra oft  – og af ýmsum ástæðum –sérstaklega erfitt með að koma fram með það, meðal annars vegna óskrifaðra karlmennskustaðla og staðalmynda samfélagsins. Þau viðhorf sem gera fólki erfitt fyrir að stíga fram þarf að uppræta – ofbeldi er ofbeldi og allir þolendur þess eiga skilið stuðning okkar og virðingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert