Lítið hlaup er hafið í Múlakvísl. Brúarmannvirki og mannslíf geta verið í hættu nái bræðsluvatn sem safnast fyrir undir Mýrdalsjökli að brjóta sér leið undan jöklinum. Mikil hreyfing er í ánni sem stendur og búið er að loka slóðum sitthvorumegin við hana.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi frá klukkan 20:00 er vatn að aukast í ánni. Austan við brúna er vatnið orðið hærra en vegurinn. Lítið hlaup er hafið í ánni, þetta staðfestir sérfræðingur Veðurstofu í samtali við mbl.is
Einar Hjörleifsson, sérfræðingur hjá Veðurstofu, segir tvennt geta gerst í framhaldi. „Annaðhvort heldur rafleiðnin áfram að vera mikil, mikið er í ánni og svo deyr þetta út smám saman eða þá þetta nær að yfirvinna ákveðinn þrýsting og þá kemur stærra flóð í kjölfarið,“ segir Einar.
„Ef stærra flóð kemur í kjölfarið myndum við mæla það og senda út viðvörun. Við erum í góðu sambandi við bæði Almannavarnir og Vegagerðina, sem eru á vettvangi,“ segir Einar. Allmörg hverasvæði eru þekkt undir Mýrdalsjökli og sírennsli frá einhverjum þeirra.
„Bræðsluvatn safnast fyrir á þessum hverasvæðum og finnur sér leið undan jöklinum þegar þrýstingur þess verður meiri en ísþrýstingurinn,“ segir Einar. Lón geta myndast þegar bræðsluvatn safnast saman og misjafnt er hversu hratt þau tæmast.
„Tæmist lónin mjög hratt geta vega- og brúarmannvirki verið í hættu. Mannslíf geta einnig verið í hættu vegna skemmda á mannvirkjum og vatnsflaums,“ segir Einar og bætir við að vel sé fylgst með og hægt sé að senda út hljóðviðvaranir ef eitthvað breytist. Brúin yfir Múlakvísl fór í hlaupi sem varð 9. júlí 2011.
Slóðum sitthvorumegin við ána hefur verið lokað. „Það er oft sem bílar fara þarna og gista, það er bara verið að koma í veg fyrir það,“ segir Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík. Að sögn Ágústs er ekki mikil umferð um slóðana alla jafna.
Ágúst var staddur við ána þegar mbl.is náði tali af honum og fannst honum staðan óbreytt frá því klukkan 16 í dag. „Það er erfitt að átta sig á því, það eru mjög margir álar og vex í einum og minnkar í öðrum. Hún [áin] er á fullri ferð,“ segir Ágúst. „Það er ekki meira vatn í henni en var klukkan 16 en maður finnur lykt og hún er vel lituð,“ segir Ágúst að lokum.
Frétt uppfærð kl. 21:29.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu á tíunda tímanum er lítið hlaup hafið í Múlakvísl.