Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að lækkun á tekjum kirknanna eftir hrun eigi þátt í því að ekki hefur verið hægt að sinna viðhaldi sem skyldi.
Fjölmargar kirkjur víðsvegar um landið þurfa nauðsynlega á viðhaldi að halda.
„Ég veit af þessu vandamáli víða um land, eftir að hrunið varð lækkuðu tekjur sóknanna og þar af leiðandi minnkaði fjármagnið sem kirkjan hefur til viðhalds. Eins lækkuðu tekjurnar til að reka kirkjurnar og halda utan um safnaðarstarfið. Þannig að það eru margar kirkjur sem sárlega þurfa betra viðhald en nú er,“ segir Agnes í umfjöllun um viðhald kirkna í Morgunblaðinu í dag.