Árið 1998 setti sænska menntamálaráðuneytið fram breytingartillögu þess efnis að öll skólastig ættu að koma á kynhlutlausri námsstefnu og kennsluháttum. Í leikskólum landsins er núna bannað að ýta undir stöðluð kynhlutverk til þess að börnin fái að þróa sig áfram á sínu áhugasviði án þrýstings frá umhverfinu um stöðluð kynjahlutverk.
Þykja sænskir leikskólakennarar sérlega meðvitaðir um þetta og er kynhlutlausa persónufornafnið „hen“ („hán“ á íslensku) notað í mörgum skólum í daglegu tali.
Lotta Rajalin stofnaði Egalia, fyrsta kynhlutlausa leikskóla Svíþjóðar, í Södermalm-hverfinu í Stokkhólmi árið 2010 og vakti skólinn strax athygli fyrir það að nota ekki persónufornöfnin „hann“ og „hún“ heldur hvetja börnin til að segja „vinur“, „fólk“ eða nota kynhlutlausa fornafnið „hen“ í staðinn. Skólinn á ekki bækur sem sýna stöðluð kynhlutverk eða skilgreina hlutverk kynjanna, heldur notast þess í stað á við bækur sem sýna fjölbreyttar fjölskyldugerðir; samkynhneigð pör, einstæða foreldra og ættleidd börn. Dúkkur leikskólans eru af öllum kynþáttum og kynlausar, og segir Rajalin að börnin spyrji aldrei hvers kyns þær séu enda séu þau ekkert að velta sér upp úr því. Litanotkun er heldur ekki tengd kynjum.
Rajalin stofnaði skólann með þá lýðræðishugmynd að leiðarljósi að öll börn hafi rétt til þess að vera það sem þau eru og það sem þeim finnist þau vera, óháð kyni, þjóðfélagsstétt eða kynhneigð. „Þetta er spurning um and-mismunun,“ segir Rajalin í nýlegri heimildarmynd „Raised Without Gender“.
Samkvæmt lítilli rannsókn sem birtist í Journal of Experimental Child Psychology hafa rannsakendur við Háskólann í Uppsölum komist að því að börn sem ganga í kynhlutlausan leikskóla séu líklegri til þess að leika við ókunnug börn af gagnstæðu kyni, og ólíklegri til að verða fyrir áhrifum af kynjuðum staðalímyndum en börn sem ganga í hefðbundnari leikskóla.
Ben Kenward, rannsakandi í sálfræði við Háskólann í Uppsölum og Oxford Brookes-háskólann, stýrði rannsókninni og útskýrði í sænskum fjölmiðlum að niðurstöðurnar sýndu að þótt kynhlutlausir leikskólar drægju ekki úr tilhneigingu barnanna til að flokka fólk eftir kyni, drægju þeir hins vegar úr tilhneigingu til að draga ályktanir byggðar á staðalímyndun og kynjamismunun, og að slíkt gæti fjölgað möguleikunum sem standa börnunum til boða í framtíðinni.
Hann leggur til að framtíðarrannsóknir ættu að reyna að finna út hvort kynhlutlausir leikskólar stuðluðu að aukinni velgengni, þar sem ýmislegt í rannsókninni hafi bent til þess. Við rannsóknina voru nemendur þaðan t.d. mun opnari fyrir að prófa nýja hluti en börnin í hefðbundnu leikskólunum. „Þar sem börn þroskast í gegnum leik og samskipti við félaga sína, og mörg leikföng sem stuðla að auknum þroska eru vanalega kynjuð, þá er það skynsamleg ályktun að kynhlutlausar kennsluaðferðir séu líklegar til að auka við þroska barnanna og velgengni í framtíðinni.“
Eldri rannsóknir styðja þessa ályktun hans.
Kynhlutlausir leikskólar eru ennþá sjaldgæfir, jafnvel í Svíþjóð sem er fjórða sæti á heimsvísu þegar kemur að jafnrétti kynjanna.
Rajalin sem tók forystuna hefur vitanlega orðið fyrir gagnrýni fyrir sínar framsæknu aðferðir, og segist fá fjöldann allan af bréfum og tölvupóstum, auk þess að lesa blogg þar sem hún sé gagnrýnd. Í viðtali við New York Times sagði hún: „Það eru ekki mikil rök í þessari gagnrýni, þetta er mestmegnis reiði.“
Rajalin finnst ekkert sjálfsagðara en að fjarlægja handahófskenndar takmarkanir á því sem börn geti kynnt sér og samsama sig við. Að halda börnum opnum fyrir öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða er ein af lykilhugmyndum sem skólastarf þeirra byggist á. „Við erum ekki að taka neitt frá börnunum. Við erum þvert á móti að að auka við reynsluheim þeirra.“