Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur tekist að hafa uppi á eiganda Toyota Land Cruiser jeppa sem setið hefur fastur í hlíðum Esjunnar á annan sólarhring. Búið er að taka skýrslu af eigandanum þar sem hann skýrði frá erindi sínu upp fjallið, eða reyndi það að minnsta kosti.
„Hann sagðist hafa verið með erlenda ferðamenn með sér í bílnum og ætlaði að snúa við þarna. Hann virðist hins vegar ekki hafa áttað sig því að þetta er mýri. Hann keyrði upp slóða sem liggur þarna upp en fer út af honum til að reyna að snúa við,“ segir Ásgeir Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Um er að ræða vegarslóða sem útbúinn var í síðari heimsstyrjöld og liggur meðfram Rannsóknastöð skógræktar við Mógilsá. Um miðja hæð liggur slóðinn til vesturs og framhjá Þverfellshorni þar sem hann hverfur sjónum og yfir hann grær. Þar situr bíllinn fastur, í um 400 metra hæð uppi í hlíðinni.
Ásgeir segir að ekki sé gert ráð fyrir því að almenningur keyri þennan slóða, en hann er gjarnan notaður sem neyðarbraut fyrir björgunaraðila. Hvernig manninum datt í hug að aka upp fjallið, eða í hvaða tilgangi er enn óljóst. „Þetta gæti hafa verið eitthvað óðagot. Mönnum dettur ýmislegt í hug.“
Ásgeir segir nú unnið í því að finna rétta tækið til að ná bílnum úr mýrlendinu og af fjallinu þannig sem minnst rask verði á umhverfinu. Það auðveldar leikinn að hafa nú aðgang að lyklum bílsins eftir að eigandinn gaf sig fram. Ásgeir segir það þó hægara sagt en gert að ná bílnum enda ekki hægt að keyra inn á svæðið þar sem jeppinn er fastur.