Hélt að myndin væri „fótósjoppuð“

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Golli

Skrifstofustjóri Alþingis hélt fyrst að ljósmynd sem birtist á samskiptasíðunni Instagram af Björt Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra í sal Alþingis hafi verið „fótósjoppuð”.

Myndin var notuð í auglýsingaskyni fyrir breska tískuvörumerkið Galvan London. Sólveig Káradóttir, listrænn stjórnandi vörumerkisins, er vinkona Bjartar.

„Ósköp leiðinlegt“

„Ég get ekki meinað þingmanni að fara inn í þingsalinn, hvernig svo sem hann er á sig kominn eða búinn, en hitt er augljóst mál að þessi myndataka er í einhverjum undarlegum tilgangi, sem er óskyldur þingstörfunum. Það þykir mér ósköp leiðinlegt,” segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra í auglýsingunni.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra í auglýsingunni. Ljósmynd/Instagram-síða Galvan London

Hann fékk myndina senda frá Fréttablaðinu fyrir helgi, þar sem frétt um myndatökuna birtist í morgun. Fyrst hélt Helgi að myndin hafi verið sett saman í tölvu, sérstaklega vegna þess salur Alþingis hefur verið lokaður undanfarnar vikur vegna viðhaldsframkvæmda á gólfi í Skálanum. Hann hefur núna verið opnaður aftur.

„Við höfum ekki orðið vör við neinar mannaferðir þarna að ráði síðustu vikur. Þess vegna kom þetta mér líka á óvart,” segir hann og telur útilokað að myndin hafi verið tekin á meðan framkvæmdirnar stóðu yfir. 

Hafi salinn ekki til einkanota

Aðspurður telur Helgi að Björt hefði mátt spyrja þingverði álits vegna myndatökunnar, þó svo að hún hafi strangt til tekið ekki brotið neinar reglur. Samkvæmt þeim má ekki taka myndir inni í þingsalnum en það má taka myndir inn í salinn, utan frá. „Almennt er ekki gert ráð fyrir því að þingmenn hafi salinn til einkanota, eins og til dæmis að mynda sig fyrir prófkjörsauglýsingar og þess háttar. Það hefur ekki verið þannig og það hafa allir verið sáttir við það, og skilið að annars fer í óefni.”

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Þjóðarsalur, ekki bara vinnuaðstaða

Kemur til greina að breyta einhverjum reglum vegna þessa atviks?

„Nei, það hefur ekki verið talað um það en það reynir stöðugt á þessar reglur vegna þess að tækninni fleygir fram. Fólk áttar sig, held ég, ekki alltaf á því að þingsalurinn er ekki bara vinnuaðstaða. Hann er þjóðarsalur sem þjóðin telur sig eiga sameiginlega, og menn sem starfa á þingi mega ekki fara með hann eins og þeir vilja sjálfir,” segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert