Mótmæla fyrirhugaðri skólphreinsistöð í þéttbýli

Frá Reykjahlíð í Skútustaðahrepp. Íbúar eru ósáttir við að reisa …
Frá Reykjahlíð í Skútustaðahrepp. Íbúar eru ósáttir við að reisa eigi skólphreinsistöð við þéttbýli. Ljósmynd/Wikipedia

Íbúar sveitarfélagsins Skútustaðahrepps, það er Mývatnssveit, hafa skilað inn undirskriftarlista þar sem fyrirhugaðri skólphreinsistöð í Reykjahlíð er mótmælt. Tæplega 60 íbúar skrifuðu undir og var undirskriftum skilað með ábyrgðarpósti á fimmtudag.

Að sögn Ásdísar Illugadóttur, sem ásamt öðrum stóð fyrir undirskriftarsöfnuninni, tóku íbúar sveitarfélagsins eftir því á heimasíðu Skútustaðahrepps að til standi að reisa skólphreinsistöðina. „Við erum að mótmæla þessu og vonum að því verði ekki stungið undir stól,“ segir Ásdís.

Reynt að lauma inn skipulagsbreytingum þegar fólk er í fríi

„Við vissum þetta ekki fyrr en í byrjun vikunnar [síðustu viku] og við þurftum að skila þessu inn núna. Þá var meira að segja hreppskrifstofan lokuð,“ segir Ásdís og bætir við að það gerist ár eftir ár að reynt sé að lauma inn skipulagsbreytingum í júlímánuði þegar flestir eru í fríi.

„Við erum rétt búin að hlusta á alla bilanaromsuna frá Reykjavík, allur búnaður getur bilað og þá finnst manni bara óyndislegt að láta sér detta í hug að setja niður skólphreinsistöð stutt frá íbúðarhúsum,“ segir Ásdís að lokum.

Sveitastjórn í fríi

Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps, segir í samtali við mbl.is undirskriftarlistann móttekinn. „Þetta var bara að berast í morgun. Ég er ekki búinn að fara yfir þetta og sveitarstjórn er í fríi,“ segir Yngvi.

Að sögn Yngva kemur sveitarstjórn til starfa 30. ágúst. „Þetta er móttekið og verður farið yfir það þegar sveitarstjórn kemur úr fríi og sjálfu sér ekkert meira um það að segja á þessum tímapunkti,“ segir Yngvi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert