„Ótrúlega spennt fyrir að þetta byrji“

Katrín Tanja Davíðsdóttir ætlar að leggja sig alla fram og …
Katrín Tanja Davíðsdóttir ætlar að leggja sig alla fram og reyna að hreppa titilinn „hraustasta kona í heimi" þrijða árið í röð. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

Heimsleikarnir í crossfit hefjast nú í vikunni en íslenskir keppendur hafa mátt góðu gengi fagna á leikunum undanfarin ár. Þeirra á meðal er Katrín Tanja Davíðsdóttir sem á titil að verja en hún fór með sigur af hólmi á leikunum bæði í fyrra og árið þar áður.

„Ég er búin að vinna mjög hart að því en maður getur ekki stjórnað neinu með úrslit,“ segir Katrín Tanja í samtali við mbl.is, spurð hvort hún stefni á að hreppa titilinn „hraustasta kona í heimi“ þriðja árið í röð. „Það eina sem ég get einbeitt mér að er að gefa allt í þetta sem ég get og haldið fókus mín megin.“

Hún segir undirbúninginn hafa gengið afar vel og kveðst hlakka til leikanna í ár. „Mér finnst undirbúningurinn hafa gengið bara mjög vel. Svo lengi sem þú ert búinn að gefa allt í undirbúninginn þá er bara skemmtilegasti parturinn eftir; það er bara að gefa allt í þetta og keppa,“ segir Katrín Tanja.

Vita ekki hvaða þrautir bíða þeirra

Í ár fara leikarnir fram í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum en líkt og venjulega vita keppendur aldrei nákvæmlega fyrirfram í hvers konar greinum þeir koma til með að keppa. Að sögn Katrínar fá þeir oft að vita aðeins að hluta til hvað felst í þrautunum en ekki er endilega vitað fyrr en á síðustu stundu hvar, hvenær eða með hvaða hætti keppendur þurfa að leysa þrautirnar. Formlega hefst keppnin fimmtudaginn 3. ágúst en að sögn Katrínar gæti verið að leikar hefjist á miðvikudag.

 „Við vitum kannski svona einn þriðja af greinunum,“ segir Katrín Tanja. „Það er eiginlega bara mun skemmtilegra að hafa það þannig því svo þegar kemur að því þá er þetta allt nýtt fyrir manni. Það er eiginlega bara betra þannig því þá kemur meira í ljós hver er andlega undirbúinn og hver getur dílað við aðstæðurnar bara eins og þær eru þegar að því kemur,“ útskýrir hún.

„Ég er með gott teymi í kringum mig og mér líður vel og ég er bara ótrúlega spennt fyrir að þetta byrji allt saman,“ segir Katrín Tanja. „Ef að ég einbeiti mér og svo lengi sem ég er að hlæja og hafa gaman af þessu þá einhvern veginn gengur mér alltaf best,“ segir hún að lokum.

Fjórar dætur og tveir synir

Alls etja 40 kappi í kvennaflokki og jafn margir í flokki karla. Þá er jafnframt keppt í liðafkeppni og í nokkrum flokkum fyrir unglinga og eldri keppendur.

Í ár eiga sæti á leikunum auk Katrínar Tönju þær Annie Mist Þórisdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir í kvennaflokki og Björgvin Karl Guðmundsson í karlaflokki. Þá keppa tvö íslensk lið á leikunum, þ.e. lið Crossfit XY og Crossfit Reykjavík.

Annie Mist, líkt og Katrín Tanja, hefur tvisvar sinnum farið með sigur í keppninni en það var árin 2011 og 2012. Ragnheiður Sara hefur einnig komist á pall en hún var til að mynda í þriðja sæti á leikunum bæði í fyrra og árið þar áður. Björgvin Karl hefur nokkrum sinnum komist inn á top 10 en Þuríður Erla hafnaði í 19. sæti leikanna í fyrra. Þá keppir Hilmar Harðarson í flokki karla 60 ára og eldri en hann sigraði í sínum flokki á leikunum árið 2013 og hafnaði í 18. sæti í fyrra, þá í flokki 55-59 ára.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert