„Veit ekki hvað mönnum gekk til“

Ekki hefur tekist að hafa upp á eiganda jeppans þrátt …
Ekki hefur tekist að hafa upp á eiganda jeppans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lögreglu.

Lögreglu hefur ekki enn tekist að hafa upp á eiganda Toyota Land Cruiser-jeppa sem situr fastur í um 400 metra hæð í hlíðum Esjunnar. Bílnum virðist hafa verið ekið upp fjallið seint á laugardag, en það var göngufólk sem gerði lögreglu viðvart um bílinn á sunnudagsmorgun.

Eigandinn hefur hvorki gefið sig fram né svarað símtölum lögreglunnar, að sögn Ásgeirs Péturs Guðmundssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann viðurkennir að málið sé afar sérstakt. „Maður veit ekki hvað mönnum gekk til með því að fara þarna upp og það er ansi sérstakt að ná ekki í eigandann. Það verður þó að huga að einhverjum ráðstöfunum um að taka hann niður fyrr eða síðar.“

Ásgeir segir það væntanlega koma í ljós í dag hvaða aðgerðir verður ráðist í til að fjarlægja bílinn af fjallinu. Heppilegra væri þó að hafa lykilinn en hann er ekki í bílnum. „Það væri þægilegra að hafa hann og þess vegna höfum lagt áherslu á að ná í eigandann.“ Náist hins vegar ekki í hann verður fljótlega ráðist í einhverjar aðgerðir til að sækja bílinn.

Útlit er fyr­ir að bílnum hafi verið ekið eftir slóða sem gerður var í síðari heims­styrj­öld og ligg­ur meðfram Rann­sókna­stöð skóg­rækt­ar við Mó­gilsá. Um miðja hæð ligg­ur slóðinn til vest­urs og fram­hjá Þver­fells­horni þar sem hann hverf­ur sjón­um og yfir hann grær. Þar sit­ur bíllinn fastur en greini­leg og djúp hjól­för eru eft­ir hann í grasinu.

Líkt og áður sagði er bíllinn í um 400 metra hæð og var ökumaðurinn því kominn langleiðina upp Esjuna þegar hann yfirgaf bílinn. Til samanburðar má nefna að Steinninn, sem göngufólk gengur gjarnan upp að, er í 587 metra hæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert