Lögreglu hefur ekki enn tekist að hafa upp á eiganda Toyota Land Cruiser-jeppa sem situr fastur í um 400 metra hæð í hlíðum Esjunnar. Bílnum virðist hafa verið ekið upp fjallið seint á laugardag, en það var göngufólk sem gerði lögreglu viðvart um bílinn á sunnudagsmorgun.
Eigandinn hefur hvorki gefið sig fram né svarað símtölum lögreglunnar, að sögn Ásgeirs Péturs Guðmundssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann viðurkennir að málið sé afar sérstakt. „Maður veit ekki hvað mönnum gekk til með því að fara þarna upp og það er ansi sérstakt að ná ekki í eigandann. Það verður þó að huga að einhverjum ráðstöfunum um að taka hann niður fyrr eða síðar.“
Ásgeir segir það væntanlega koma í ljós í dag hvaða aðgerðir verður ráðist í til að fjarlægja bílinn af fjallinu. Heppilegra væri þó að hafa lykilinn en hann er ekki í bílnum. „Það væri þægilegra að hafa hann og þess vegna höfum lagt áherslu á að ná í eigandann.“ Náist hins vegar ekki í hann verður fljótlega ráðist í einhverjar aðgerðir til að sækja bílinn.
Útlit er fyrir að bílnum hafi verið ekið eftir slóða sem gerður var í síðari heimsstyrjöld og liggur meðfram Rannsóknastöð skógræktar við Mógilsá. Um miðja hæð liggur slóðinn til vesturs og framhjá Þverfellshorni þar sem hann hverfur sjónum og yfir hann grær. Þar situr bíllinn fastur en greinileg og djúp hjólför eru eftir hann í grasinu.
Líkt og áður sagði er bíllinn í um 400 metra hæð og var ökumaðurinn því kominn langleiðina upp Esjuna þegar hann yfirgaf bílinn. Til samanburðar má nefna að Steinninn, sem göngufólk gengur gjarnan upp að, er í 587 metra hæð.