„Austurlandi til háborinnar skammar“

Yfir álagstíma, sérstaklega á sumrin og í bleytu, verður malarvegurinn …
Yfir álagstíma, sérstaklega á sumrin og í bleytu, verður malarvegurinn yfir Vatnsskarð að Borgarfirði eystra gjörsamlega ónýtur. Ljósmynd/Eyþór Hannesson

Ástandið á Borgarfjarðarvegi er Austurlandi til skammar. Yfir álagstíma, sérstaklega á sumrin og í bleytu, verður malarvegurinn yfir Vatnsskarð að Borgarfirði eystra gjörsamlega ónýtur. Þetta segir Hafþór Snjólfur Helgason, formaður Ferðamálahóps Borgarfjarðar, í samtali við mbl.is. 

Að sögn Hafþórs er umferðarþungi um veginn afar mikill yfir álagstíma og það eigi ekki að koma á óvart að malarvegurinn þoli ekki álagið. Sumarumferð um Vatnsskarð sé oftast nálægt 400 bílum á sólarhring og í kringum Bræðsluhátíðina margfaldist sú tala.

Eftir mikið álag sé vegurinn torfær. „Á köflum ertu að lulla þetta á tíu kílómetra hraða og það er ekkert grín að fara þarna á húsbílum eða með hjólhýsi í eftirdragi,“ segir Hafþór.

Eins og að margmíga í skóinn sinn

Hafþór segir að til þess að vegurinn geti höndlað álagið þurfi að malbika hann.

„Það er engin opinber þjónusta á vegum ríkisins á Borgarfirði. Það er ekki læknir, það er ekki pósthús; það er ekkert. Við þurfum að sækja alla opinbera þjónustu á Egilsstaði eða aðra firði og þetta er eini þéttbýliskjarninn sem er ekki tengdur næsta byggðarlagi með bundnu slitlagi,“ segir hann.

Að sögn Hafþórs var búið að lofa fjármagni í þennan veg á  síðasta ári til að ganga í framkvæmdir og malbika hluta af vegium en ekkert hafi orðið af þeim framkvæmdum.

Til þess að halda malaveginum við þurfi Vegagerðinn aftur á móti að eiga við hann reglulega en það endist venjulega stutt og kosti ríkið fjármagn. „Þetta er eins og að margmíga í skóinn sinn,“ segir Hafþór.

Að sögn Hafþórs er umferðarþungi um veginn afar mikill yfir …
Að sögn Hafþórs er umferðarþungi um veginn afar mikill yfir álagstíma og það eigi ekki að koma á óvart að malarvegurinn þoli ekki álagið. Ljósmynd/Eyþór Hannesson

Ferðamenn snúi við vegna vegarins

Hafþór segir að vegurinn blasi ferðamönnum fyrstur við og það sé sorglegt enda fjörðurinn mikil náttúruperla og áberandi í kynningarefni til ferðamanna um Austurland.

„Við vitum af því að fólk hafi einfaldlega snúið við og afbókað gistingu útaf þessu, yfir hásumar,“ segir hann. „Útlendingar sem hafa aldrei nokkurn tímann séð svona á ævinni, þeir leggja ekki í þetta,“ bætir hann við.

Þetta eyðileggi vinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu sem eyði mikilli orku í að markaðssetja Borgarfjörð sem áfangastað. „Það fyrsta sem það ræðir um þegar það kemur er vegurinn,“ segir Hafþór. „Í staðinn fyrir að geta rætt við túrista um það sem skiptir máli þá fer allur tíminn í að afsaka veginn,“ bætir hann við.

Hafþór segir vandamál Borgfirðinga vera að þau hafi engan málsvara. …
Hafþór segir vandamál Borgfirðinga vera að þau hafi engan málsvara. Það sé einfaldlega öllum „alveg sama“. Ljósmynd/Eyþór Hannesson

Ástandið á veginum til skammar

Hafþór segir vandamál Borgfirðinga vera að þau hafi engan málsvara. Það sé einfaldlega öllum „alveg sama.“ 

Hafþór birti nýlega frétt inná vef ferðamálahópsins þar sem hann skorar á þingmenn kjördæmisins og samgönguráðherra til að gera eitthvað í veginum. „Þetta er ykkur öllum og Austurlandi til háborinnar skammar,“ segir tilkynningin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert