Flokkur fólksins mælist með 8,4% fylgi nú, sem er meira en tvöfalt meira en hann hafði fyrir mánuði síðan. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Flokkurinn fengi fimm þingmenn kjörna ef kosið yrði núna.
Flokkur fólksins mældist með 3,8% fyrir mánuði síðan í Þjóðarpúlsi Gallup.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn landsins samkvæmt könnun Gallup. Hann mældist í júlí með 26,5% fylgi en Vinstri grænir koma þar á eftir með 21,2%, að því er kom fram í útvarpsfréttum Rúv.
Tæplega 13% styðja Pírata og 11,4% Framsóknarflokkinn og 9,1% Samfylkinguna. Fylgi þessara flokka breytist lítið frá síðustu mælingu.
Viðreisn mælist með 5,3% fylgi og Björt framtíð 3,7% fylgi en flokkarnir sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Flokkur fólksins mældist fyrir viku síðan með 6,1% fylgi í skoðanakönnun MMR.