Bakgrunnur meints kennitöluflakkara ekki skoðaður

Ef ábendingar um meint kennitöluflakk hefðu borist áður en útboði …
Ef ábendingar um meint kennitöluflakk hefðu borist áður en útboði var tekið hefð viðskiptasaga fyrirtækisins verið skoðuð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bakgrunnur Kristjáns Ólasonar, eiganda fyrirtækisins Viðhald og viðgerðir ehf., var ekki kannaður sérstaklega áður en Reykjavíkurborg tók tveimur tilboðum fyrirtækisins í verkefni á vegum borgarinnar. Um er að ræða áhorfendastúku við leikvöll Þróttar í Laugardalnum og gluggaskipti í Klettaskóla.

DV greindi frá því um miðjan júlí að að umrætt fyrirtæki væri nú starfrækt á fjórðu kennitölunni og var eigandinn, Kristján, sagður með slóð gjaldþrota í viðskiptasögu sinni. Hann hefði keyrt sex félög í þrot frá árinu 2007. Þá kom jafnframt fram í frétt DV að skattrannsóknarstjóri hefði rannsakað meint brot Kristjáns í tengslum við rekstur fyrirtækjanna.

Fyrirtækið stóðst skoðun á fjárhag

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is um málið segir að bakrunnur Kristjáns hafi ekki verið kannaður en að farið hafi fram skoðun á fjárhag á grundvelli skilmála útboðsins áður en tilboðinu var tekið og hafi fyrirtækið staðist þá skoðun.

Í innkaupareglum Reykjavíkurborgar frá árinu 2014 segir að fjárhagsstaða og tæknileg geta fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Þar segir jafnframt: „Ekki skal krefjast frekari gagna um sönnun á fjárhagslegri og tæknilegri getu en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðra innkaupa. Innkaupadeild leiðbeinir við gerð krafna um fjárhagstöðu í útboðsgögnum.“ Hins vegar er hægt að fara skoðun á viðskiptasögu eiganda þyki tilefni til.

Hægt er að útiloka fyrirtæki frá samningum

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is um hvort það hefði haft áhrif á viðskipti borgarinnar við Viðhald og viðgerðir ehf. ef starfsmenn hefðu haft vitneskju um meint kennitöluflakk segir:

„Hefðu ábendingar um meint kennitöluflakk komið fram áður en tilboði í framangreindu útboði var tekið hefði skoðun á viðskiptasögu eiganda farið fram samhliða fjárhagsskoðun í útboðsferlinu. Samkvæmt innkaupareglum Reykjavíkurborgar er heimilt að kanna viðskiptasögu eiganda í þeim tilgangi að kanna hvort tilefni sé til að beita heimildarákvæði 28. gr. og vísa bjóðanda frá samningsgerð.“

En þar segir:

Heimilt er að útiloka fyrirtæki frá samningum ef eitthvað af eftirfarandi á við:

  1. Bú fyrirtækis er undir gjaldþrotaskiptum eða félagi hefur verið slitið, það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
  2. Óskað hefur verið gjaldþrotaskipta eða slita á fyrirtæki, það hefur leitað heimildar til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
  3. Fyrirtæki hefur með endanlegum dómi verið fundið sekt um refsivert brot í starfi.
  4. Fyrirtæki hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi sem kaupanda er unnt að sýna fram á.
  5. Fyrirtæki hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.

Við áðurnefnda skoðun er stuðst við upplýsingar úr Creditinfo Lánstrausti hf. eins og þær eru á hverjum tíma. Reykjavíkurborg ber hins vegar fyrir sig trúnað og segist ekki geta svarað því til hvaða niðurstöðu slík könnun á viðskiptasögu fyrirtækisins hefði leitt.

Ekki svarað hvort aftur verði farið í viðskipti

Í svari Reykjavíkurborgar er bent á þætti sem geri það erfiðara um vik að fá vitneskju um vafasama viðskiptasögu, sé hún til staðar. Skattrannsóknarstjóri tilkynnir ekki um rannsóknir á sínum vegum, upplýsingum eldri en fjögurra ára er eytt úr Creditinfo og ef kennitala er aðeins tengd einu gjaldþroti yngra en fjögurra ára kemur það ekki fram á vanskilaskrá.

Blaðamaður óskaði jafnframt eftir svörum varðandi það hvort Reykjavíkurborg myndi aftur eiga viðskipti við eiganda fyrirtækisins Viðhald og viðgerðir ehf. eftir að þessar upplýsingar hafa komið fram.

„Almennt er verklag við fjárhagsskoðun þannig að hafi komið fram ábendingar sem gefa tilefni til að kanna viðskiptasögu bjóðenda í samninga hjá Reykjavíkurborg fer slík könnun fram í tengslum við fjárhagsskoðun. Ekki er mögulegt að svara því á þessari stundu hver niðurstaða slíkrar könnunar verði í framtíðinni enda upplýsingar í vanskilskrá síbreytilegar,“ segir í svari borgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka