„Þetta er alveg dásamlegt bara,“ segir Guðmundur Karl Karlsson, einn skipuleggjenda 12 ára afmælisveislu hinnar afgönsku Hanyie Maleki. Til stendur að senda Hanyie og föður hennar úr landi en það var draumur Hanyie, sem er 11 ára en verður 12 ára í október, að halda upp á afmælið sitt á Íslandi.
Blásið var því til veislu fyrir Hanyie í blíðskaparveðri á Klambratúni í dag og segir Guðmundur fjölda fólks hafa mætt í veisluna sem var opin öllum þeim sem vildu halda upp á daginn með Hanyei.
Afmælissöngurinn, sem leiddur var af söngkonunni Þórunni Antoníu, glumdi í bakgrunni þegar mbl.is náði tali af Guðmundi Karli sem var staddur í veislunni en hann ætlar að um 150 manns hafi þá verið staddir á svæðinu.
„Svo er búið að vera svo mikið flæði, fólk er búið að koma og fara og það var allt troðið,“ segir Guðmundur. „Fólk hefur komið færandi hendi og fagnað með henni.“
Boðið var upp á stærðarinnar afmælistertu með mynd af Hanyie, blöðrur, gleði og glens og er hún himinlifandi með daginn og veisluna. Henni bárust einnig einhverjar gjafir og nefnir Guðmundur Karl dæmi um tvær ókunnugar konur sem komu færandi hendi.
„Það komu hérna tvær alveg yndislegar konur. Þær höfðu séð um málið í sjónvarpinu og urðu bara að koma til þess að gefa henni gjöf og komu með einhyrning fyrir hana, lítinn bangsa, ægilega fallegt,“ segir Guðmundur Karl, hrærður yfir jákvæðum viðbrögðum almennings.
Enn stendur yfir undirskriftasöfnun á vegum Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, þar sem þrýst er á Útlendingastofnun um að endurskoða mál feðginanna. Listinn verður afhentur stofnuninni mjög fljótlega í kjölfar veislunnar enda naumur tími til stefnu að sögn Guðmundar.
Þá er einnig hægt að gefa Hanyei afmælisgjöf með því að leggja inn á reikning: 0513-14-406615 á kennitölu Guðmundar, 091082-5359, þar sem ekki var hægt að stofna reikning í nafni Hanyei sjálfrar sem að óbreyttu verður senn vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.