Vinna er hafin í dómsmálaráðuneytinu við frumvarp sem breytir lögum, m.a. sem kveða á um uppreist æru. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segist stefna að því að frumvarpið og bandormur með því, vegna þess að það muni taka til ýmissa laga, verði lagt fram á næsta þingi.
Sú mikla umræða í þjóðfélaginu sem varð í kjölfar ákvörðunar um að veita Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, uppreist æru er helsta skýring þess að dómsmálaráðherra hefur sett ofangreinda vinnu í gang í ráðuneytinu. Sem kunnugt er var Róbert Árni dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot fyrir níu árum en með uppreist æru öðlaðist hann lögmannsréttindi á nýjan leik.
„Ég er að horfa til þess að það að veita uppreist æru verði aflagt úr 85. grein almennra hegningarlaga. Breytinga er þörf vegna þess að það eru svo mörg lagaákvæði sem kveða á um það að menn þurfi að hafa óflekkað mannorð. Í ýmsum störfum er gert að skilyrði að menn hafi ekki brotið af sér með tilteknum hætti,“ sagði Sigríður í samtali við Morgunblaðið í gær.
Hún telur að í umfjöllun um þessi mál, m.a. í fjölmiðlum, hafi gætt ákveðins misskilnings á því hvað felst í fyrirbærinu uppreist æra. „Sá sem fær uppreist æru getur gengið í tiltekin störf og orðið kjörgengur. Orðið sjálft hefur þann blæ yfir sér að það sé í raun veigameira en það er. Ég get alveg skilið þau hugrenningartengsl hjá almenningi, en lögfræðilega er þetta nú ekki jafnmikil uppreist og menn vilja vera láta,“ sagði dómsmálaráðherra.
„Mér finnst því helst koma til greina að fella þetta úr lögunum, en gera um leið grein fyrir því og því verði lýst nákvæmlega hvað felst í skilyrðinu að hafa óflekkað mannorð, þ.e. hvaða skilyrði menn verða að uppfylla,“ sagði Sigríður og benti á sem dæmi að gerð væri krafa um að þeir sem sætu í stjórn RÚV væru með óflekkað mannorð.
Tekið verði fram í ákveðnum tilvikum að menn megi ekki hafa gerst brotlegir við lög sem varði svo og svo langa fangelsisvist, eða þá að menn hafi ekki hlotið fangelsisdóm í svo og svo mörg ár. „Við viljum gera þetta mjög skýrt og þá verður ferlið allt gagnsærra gagnvart þeim sem eru að horfa til þessara sérstöku lagaákvæða.
Það eru margir lagabálkar sem kveða á um þetta, en þessar breytingar eru að mínu mati ekki óyfirstíganlegar. Vinnan er hafin og við erum á fullu í að skýra þessi lagaákvæði,“ sagði dómsmálaráðherra.