Úr álögum moldarkofanna

Sementsverksmiðjan á Akranesi.
Sementsverksmiðjan á Akranesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi hefur lokið hlutverki sínu og hin miklu mannvirki verksmiðjunnar verða rifin á næstu misserum, alls um 140 þúsund rúmmetrar.

Sementsverksmiðjan var reist á Akranesi á árunum 1956-1958. Hún tók formlega til starfa 14. júní 1958 en þann dag lagði Ásgeirs Ásgeirsson, forseti Íslands, hornstein verksmiðjunnar. Fyrstu sementspokarnir komu á markað nokkru síðar. Í frásögn Morgunblaðsins af vígslu verksmiðjunnar 14. júní 1958 sagði orðrétt: „Þá lagði forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, hornstein að verksmiðjunni. Gerði hann það með því að múra blýhólk með sögu verksmiðjumálsins til þessa dags og fleiri merkum upplýsingum í þar til gerða rás í verksmiðjuveggnum. Flutti hann ávarp, óskaði þjóðinni heilla, „að vera leyst úr aldagömlum álögum moldarkofanna, hafnleysu og vegleysu“.“

Er óhætt að segja að orð Ásgeirs forseta hafi ræst. Sementsverksmiðjan framleiddi hráefni í steinsteypu í meira en hálfa öld og leysti þjóðina úr álögum moldarkofanna.

Verktakar eru áhugasamir

Akraneskaupstaður auglýsti á dögunum eftir tilboðum í niðurrif á byggingum og búnaði Sementsverksmiðjunnar. Tilboð verða opnuð miðvikudaginn 30. ágúst nk. Fram kom í fréttum fyrr á þessu ári að áætlaður kostnaður við niðurrif mannvirkjanna væri um 400 milljónir króna.

Kynningarfundur var haldinn í síðustu viku og var hann mjög vel sóttur.

„Það er greinilegt að margir verktakar hafa áhuga á verkinu,“ segir Sigurður Páll Harðarson,

sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar. Reiknað er með að niðurrif hefjist nú á haustmánuðum og ljúki haustið 2018.

Alls verða 16 mannvirki rifin en önnur fá að standa, til dæmis sementstankarnir og strompurinn, sem setja mikinn svip á umhverfið. Óvirkum úrgangi (steypubrotum) verður komið fyrir í núverandi skeljasandgryfju. Í þá gryfju vantar umtalsvert efni m.t.t. áforma um uppbyggingu skv. deiliskipulagi sem nú er í kynningu, segir Sigurður Páll. Vélbúnaðurinn fer væntanlega í brotajárn.

Hráefnin í framleiðslu Sementsverksmiðjunnar voru skeljasandur úr Faxaflóa og líparít úr Hvalfirði. Þess vegna var Akranes talin heppilegasta staðsetning fyrir verðsmiðjuna. Framleiðslugeta verksmiðjunnar var um 100 þúsund tonn af gjalli og 200 þúsund tonn af sementi á ári. Sementsverksmiðju ríkisins var breytt í hlutafélag árið 1993 og fékk heitið Sementsverksmiðjan ehf. Íslenskt sement ehf. keypti verksmiðjuna af ríkinu í október 2003.

Í áratugi sá verksmiðjan íslenskum byggingariðnaði fyrir sementi. Eftir bankahrunið dróst salan verulega saman og árið 2011 var það lélegasta í sögu verksmiðjunnar. Nam salan þá aðeins um 32 þúsund tonnum. Þegar mest var (árið 1975) var salan tæp 160 þúsund tonn en þá var mikil uppbygging á Þjórsársvæðinu. Salan 2007 nam tæplega 153 þúsund tonnum, en þá voru framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun í fullum gangi.

Síðustu tonnin voru framleidd í Sementsverksmiðjunni á Akranesi í febrúarmánuði 2012 og sama ár var hafinn innflutningur á sementi frá norska sementsframleiðandanum Norcem AS. Sementsinnflutningur verður áfram að sögn Sigurðar Páls en Sementsverksmiðjan er með mannvirki sem nýtast undir þá starfsemi til ársins 2028. Um er að ræða mannvirki sem eru vestast á svæðinu, þ.e. pökkunarmiðstöð, sementssíló og rana út á sementsbryggju.

Á fyrstu áratugum í rekstri Sementsverksmiðjunnar störfuðu þar allt að 180 manns. Með breyttri tækni fækkaði starfsmönnum og á seinni árum störfuðu lengst af um 80 manns við verksmiðjuna. Verksmiðjan var í áratugi mikilvægur hlekkur í atvinnulífi Akurnesinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert