Mikil stemning er í kringum íslenska keppendur á heimsleikunum í crossfit sem hefjast á morgun. Myllumerkið #dottir er mikið notað í tengslum við leikana og er nokkrum íslenskum keppendum spáð góðu gengi á leikunum, einkum þeim Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur, sem hafa lent í 1. og 3. sæti leikanna undanfarin tvö ár. Þá er Björgvin Karl Guðmundsson einnig í fantaformi.
Þetta segir Guðrún Linda Pétursdóttir Whitehead, fráfarandi formaður CFSÍ, CrossFit sambands Íslands, og framkvæmdastjóri Crossfit sport, sem er stödd í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum til að fylgjast með heimsleikunum.
Alls keppa sex Íslendingar í einstaklingsflokkum á leikunum og þá eiga tvö íslensk lið þar sæti. Keppnin fer í ár fram í Alliant Energy-höllinni í Madison og nemur verðlaunafé fyrir sigurvegara í bæði kvenna og karlaflokki hvorki meira né minna en 275.000 Bandaríkjadölum eða sem nemur um 28,5 milljónum króna.
Spurð hvernig andinn sé í íslensku keppendunum kveðst Guðrún mest hafa rætt við Björgvin Karl og Þuríði Erlu en mikil stemning er í kringum íslensku keppendurna.
„Björgvin er alla vega mjög spenntur af því að hann er ekkert meiddur,“ segir Guðrún, en þrátt fyrir ágætis gengi á leikunum undanfarin ár, hafi hann alltaf verið að glíma við einhver meiðsli að hennar sögn en er nú mjög vel stemmdur.
Í dag fór fram tímataka fyrir eina af fyrstu keppnisgreinunum leikanna, „cyclocross“ sem keppt verður í á fyrsta degi leikanna á morgun. Um er að ræða hjólreiðaþraut og er tímatakan fyrst og fremst ætluð til að raða keppendum niður ráshópa í sjálfri keppninni á morgun. „Þetta eru svo stór „holl“ þannig að þeir sem enda fyrstir í þessu tímatöku byrja fremst. Þú vilt að þér gangi vel í dag en það gildir ekki neitt,“ útskýrir Guðrún.
Björgvin var 8. í tímatökunni í dag af 40 keppendum og mun því vera framarlega þegar hjólaþrautin verður ræst á morgun. Keppt er í sömu greinum í karla og kvennaflokki og hefjast leikar á morgun með svokallaðri hlaup-sund-hlaup-keppni klukkan 13 að íslenskum tíma. Fylgjast má grannt með gengi keppenda á heimasíðu heimsleikanna, www.games.crossfit.com.
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá nokkrum íslensku keppendanna bregða fyrir en nýlega heimildarmynd um heimsleikana má nálgast á Netflix.