Lögreglan á Norðurlandi vestra hafði í gær hendur í hári þremenninga sem höfðu farið mikinn um umdæmið og látið greipar sópa. Að minnsta kosti sjö innbrot voru upplýst, í fyrirtæki, sumarhús og heimili. Þá hafði þremenningunum tekist að stela þremur bílum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Í ljós kom að í einhverjum tilfellum voru kveikjuláslyklar geymdir í ólæstum bílum. Lögreglan vill benda fólki á að slíkt sé til þess eins fallið að auðvelda misyndisfólki að taka bílana ófrjálsri hendi.
Lögreglan á Vesturlandi vill að því sögðu minna fólk á mikilvægi þess að læsa bílum og húsum þegar farið er að heiman. Það sé sérstaklega gott að hafa í huga um verslunarmannahelgina þegar margir eru á faraldsfæti. Þá er fólk jafnframt hvatt til að gefa sér góðan tíma til ferðalaga vegna mikillar umferðar um vegi landsins.