Birgitta hættir eftir kjörtímabilið

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Golli

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hyggst ekki bjóða sig fram til þings að nýju, hvort sem kjörtímabilið verður stutt eða langt. Þetta segir hún í viðtali í kynningarblaði sem fylgir með Fréttablaðinu í dag.

Birgitta tók fyrst sæti á Alþingi árið 2009 en segist í viðtalinu aldrei hafa stefnt að því að verða stjórnmálamaður. 

„Það er ekki hollt að vera of lengi á þingi, sama hvað fólk segir. Enginn er ómissandi og sannarlega ekki ég. Mín bíða ótal verkefni sem kraftar mínir nýtast betur til en upplýsi um það nánar þegar nær dregur,“ segir hún í viðtalinu.

Þá segist hún jafnframt hafa ætlað sér að hætta á þingi eftir síðasta kjörtímabil en ákveðið að gefa aftur kost á sér til að miðla þekkingu sinni til nýrra Pírata sem hafi skort reynslu af þingstörfum.

Loks segir hún starf þingmannsins vera samfélagsþjónusta í sínum huga. Starfið sé gefandi en að sama skapi þyki henni erfitt að vera ekki í aðstöðu til að breyta hlutum sem þurfi að breyta.

„Hefði enginn haft hugrekki til að setja á hitaveitu í stað olíukyndingar væru Íslendingar ekki með sömu lífsgæði. Ég er hræddust við stöðnun. Fólk þarf að hætta að vera hrætt við breytingar því lífið er samfelld breyting og ekki til neinn stöðugleiki. Stöðugleiki merkir stöðnun og allir sem horft hafa á vötn sem fá ekki ferskt vatn í sig horfa upp á lífríkið smám saman súrna og deyja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert