Björgvin í 3. sæti eftir tvær greinar

Björgvin Karl Guðmundsson byrjar keppni vel á heimsleikunum í crossfit …
Björgvin Karl Guðmundsson byrjar keppni vel á heimsleikunum í crossfit 2017. Ljósmynd/CrossFit Games

Björgvin Karl Guðmundsson er sem stendur í þriðja sæti í karlaflokki á heimsleikunum í crossfit, nú að loknum tveimur greinum á fyrsta degi leikanna. Efst íslenskra kvenna er Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sem er sem stendur í sjötta sæti og þá Katrín Tanja Davíðsdóttir í því áttunda. Deginum er þó ekki lokið og hvað þá leikunum sjálfum.

Önnur keppnisgrein dagsins í flokki einstaklinga var svokallað „cyclocross,“ þar sem keppendur þurftu að hjóla þrjá hringi og fara yfir hindranir í brautinni.

Björgvin kom þar fimmti í mark á tímanum 20:27.01 og er sem stendur aðeins tveimur stigum á eftir næsta manni í heildarkeppninni, Mathew Fraser ,sem er í öðru sæti. Efstur trónir Jonne Koski í augnablikinu.

Allir fyrir ofan miðju sem stendur

Ragnheiður Sara kom sjötta í mark í hjólakeppninni og er jafnframt í sjötta sæti í heildarkeppninni. Bestan árangur íslenskra kvenna í annarri greininni átti þó Katrín Tanja Davíðsdóttir sem kom þriðja í mark og Annie Mist Þórisdóttir var fimmta, en báðar eru þær tvöfaldir sigurvegarar á heimsleikunum.

Annie er sem stendur í 11. sæti í heildarkeppninni og Þuríður Erla Helgadóttir í því 17. en hún var 14. keppandinn í mark í hjólakeppninni. Þetta þýðir að allir íslenskir keppendur eru það sem af er keppni fyrir ofan miðju en alls keppa 40 manns í hvorum flokki í einstaklingskeppninni.

Liðakeppni einnig hafin

Lið Crossfit XY og Crossfit Reykjavík hafa einnig lokið einni grein í dag þar sem liðin höfnuðu í 14. og 19. sæti en liðin keppa alls í tveimur greinum í dag.

Í kvöld klukkan 21:20 að íslenskum tíma hefst svo keppni í síðustu grein dagsins í einstaklingsflokki þar sem keppendur gera upphífingar og snörun, ólympíska lyftingaraðferð, með hnébeygju. 

Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni hér að neðan og nánari upplýsingar um stöðuna á leikunum má nálgast á heimasíðu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert