Björgvin og Sara fyrst Íslendinga í mark

Keppendur í kvennaflokki á heimsleikunum í crossfit tilbúnar í fyrstu …
Keppendur í kvennaflokki á heimsleikunum í crossfit tilbúnar í fyrstu grein leikanna í ár, hlaup-sund-hlaup Ljósmynd/CrossFit Games

Heimsleikarnir í crossfit 2017 eru formlega byrjaðir en fyrstu keppnisgrein leikanna er lokið og sú næsta hefst innan skamms. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson áttu bestan tíma íslenskra keppenda í greininni en Sara kom sjöunda í mark á tímanum 30:23:04 og Björgvin var fjórði í mark í karlaflokki á tímanum 29:31:00.

Keppt var í þrautinni hlaup-sund-hlaup, þar sem keppendur þurftu að hlaupa rétt rúma 2,4 kílómetra, synda 500 metra í stöðuvatninu Monona og hlaupa svo aðra 2,4 kílómetra til baka. Eins og sjá má í meðfylgjandi Twitter-færslu lá vel á Björgvini Karli rétt áður en keppni hófst í dag. 

Næst íslenskra keppenda í mark á eftir Söru var Katrín Tanja Davíðsdóttir sem kom fjórtánda í mark á tímanum 32:17:04 og þá Þuríður Erla Helgadóttir sem var 20. keppandinn í mark á tímanum 33:08:35. Henni fast á hæla kom Annie Mist Þórisdóttir 21. í mark, aðeins 5 sekúndubrotum á eftir Þuríði á tímanum 33:08:40. Fyrst í mark í flokki kvenna var hin ástralska Tia-Clair Toomy og Kanadamaðurinn Brent Fikowski var fyrstur karla í mark.

Keppnin er þó bara rétt að byrja og getur allt gerst ennþá. Keppni í dag ekki lokið en nú er að hefjast keppni í þrautabraut á hjóli í bæði kvenna og karlaflokki. Þá keppir Hilmar Haraldsson í flokki 60 ára og eldri í sömu þraut um klukkan 17:30 en nánar um úrslit og dagskrá leikanna má nálgast á heimasíðu CrossFit Games.

Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert