Einn af þremur karlmönnum sem handteknir voru fyrir að minnsta kosti sjö innbrot í fyrirtæki, heimili og sumarhús, og þrjá bílþjófnaði, í umdæmi lögreglunnar á Blönduósi, virðist hafa haldið uppteknum hætti eftir að honum var sleppt í fyrradag.
„Einn þeirra hélt áfram, hann stal bíl og var handtekinn í Reykjavík,“ segir Hermann Ívarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Blönduósi. Fleiri innbrot voru framin sömu nótt og bílnum var stolið, en Hermann segir ekki hægt að fullyrða að sami aðili hafi verið þar að verki.
Hermann segir því erfitt að segja til um það hvort innbrotahrinunni í umdæminu sé lokið, þrátt fyrir að fjöldi mála hafa verið upplýst. „Það er ekkert hægt að segja til um það. Ef menn halda uppteknum hætti eftir að búið er að taka þá oftar en einu sinni, þá er ekkert á vísan að róa með það.“
Brotamennirnir hafa komið við sögu lögreglunnar áður og einn þeirra á rætur að rekja norður á Blönduós, segir Hermann. Hann veit ekki með rætur hinna tveggja.
Aðspurður hvort það sé ekki óvenjulegt að þurfa að takast á við innbrotafaraldur sem þennan í umdæminu, svarar Hermann því játandi. „Þetta hefur ekki verið svona mikið hjá okkur, en það kemur alltaf eitthvað upp. Á þessum tíma, rétt fyrir verslunarmannahelgi, þá er eins og menn í neyslu séu að ná sér eitthvað til að selja. Það er oft þannig.“ Hann segist þó ekki vita hvort það hafi verið raunin í tilfelli þremenninganna.