Húkkaraballið klukkutíma styttra en áður

Það er allt að verða klárt í Herjólfsdal fyrir þjóðhátíð.
Það er allt að verða klárt í Herjólfsdal fyrir þjóðhátíð. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þjóðhátíð í Eyjum hefst jafnan með Húkkaraballinu svokallaða sem fram fer nú í kvöld og stendur yfir til klukkan þrjú í nótt. Lögreglan í Vestmannaeyjum telur stefna í fjölmenna þjóðhátíð í ár og hefur allt farið vel fram það sem af er hátíðinni.

„Það er búið að vera góður straumur af fólki hérna í dag með Herjólfi og með flugi,“ segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is.

Húkkaraballið hefur til þessa yfirleitt staðið yfir til klukkan fjögur en í ár verður ballið klukkutíma styttra en venjulega að sögn Jóhannesar og er það samkvæmt ákvörðun þjóðhátíðarnefndar.

Aðspurður segir Jóhannes engin fíkniefnamál hafa komið upp ennþá en fíkniefnadeild lögreglunnar og leitarhundar verða á svæðinu um helgina.  „Við erum náttúrlega bara að byrja okkar eftirlit á fullu,“ segir Jóhannes. Þá verða einnig tveir sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra á svæðinu um helgina, lögreglunni í Eyjum til halds og trausts.

„Mér sýnist þetta alveg stefna í stóra hátíð. Ég get ímyndað mér það að þetta verði vel yfir meðallagi, veðrið er náttúrlega frábært og samgöngur góðar þannig að þá sé ég ekki annað en að fólk streymi hingað,“ segir Jóhannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka