Fjöldi jarðskjálfta hefur orðið á Torfajökulssvæðinu í morgun. Skjálftarnir eru allir litlir, þeir stærstu innan við 2 stig. Engin merki eru um gosóróa á svæðinu og þegar er tekið að draga úr virkninni.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir Torfajökulssvæðið sjálfstætt eldstöðvakerfi og ótengt Mýrdalsjökli, en töluverð skjálftavirkni hefur verið þar síðustu vikur. Skjálftana í morgun segir Sigríður Magnea ekki óvenjulega, smáhrinur sem þessar verði annað slagið á svæðinu. „Þetta er ekki óþekkt, þarna hafa komið hrinur áður, síðast í vor eða vetur.“
Enginn gosórói er á svæðinu og því engin merki um að eldgos sé í vændum í Torfajökulseldstöðinni. „Þetta eru aðeins litlir smáskjálftar sem hafa verið að hrúgast inn.“
Veðurstofunni hafa ekki borist tilkynningar um að fólk á ferðalagi á svæðinu hafi fundið skjálftana í morgun.
Aldir eru síðan Torfajökull gaus síðast, en það var um árið 1477. Einnig er vitað um gos árið 872. Torfajökulssvæðið er næstmesta háhitasvæði Íslands á eftir Grímsvötnum. Á svæðinu er stærsta askja landsins.
Töluverð skjálftavirkni hefur verið á landinu í sumar. Margir skjálftar hafa orðið á Reykjanesi og í gær minnti Bárðarbunga á sig. Stærsti skjálftinn þar í gær varð kl. 11.24 og mældist 4,5 stig. Upptökin voru í norðanjaðri Bárðarbunguöskjunnar og var hann stærsti skjálfti sem mælst hefur í Bárðarbungu frá goslokum 2015. Annar skjálfti af stærð 3,8 varð á sömu slóðum kl. 11.09 í gær. Engin merki voru um óróa.
„Bárðarbungan er afslöppuð núna,“ sagði Sigríður Magnea við mbl.is um kl. 11 í morgun.