Ólöf Nordal heitin, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, undirrituðu bréfið sem veitir Robert Downey uppreist æru, en hann var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum. Það var því Ólöf sem afgreiddi umsókn Roberts.
Í fyrstu var talið að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði verið starfandi dómsmálaráðherra þegar umsóknin var afreidd. Það var hins vegar ekki svo. Stundin.is greindi fyrst frá málinu, en mbl.is hefur einnig fengið bréfið í hendur og má sjá það neðst í greininni.
Bréfið er í raun tillaga eða beiðni sem send er forseta Íslands um á Roberti verði veitt uppreist æru. Guðni Th. Jóhannesson féllst á tillöguna og skrifaði undir hana þann 16. september síðastliðinn. Guðni sagði svo í viðtali við Stöð 2 í júní að hann væri miður sín vegna málsins. Hann sagðist ekki hafa vitað um hvaða mann væri að ræða þegar hann samþykkti tillöguna. Hann hefði ekki fengið neinn rökstuðning eða fylgigögn, einungis nafn og lengd dómsins.
Bjarni skýrði frá því í Facebook-færslu í gær að hann hefði hvorki gengt embætti innanríkisráðherra þegar málið var til lykta leitt í ráðuneytinu né þegar það var lagt fyrir forseta Íslands til staðfestingar. Hann sagði það því sæta furðu að kallað væri eftir því að hann svaraði fyrir ákvörðunina, líkt og gert hefur verið.
„Tillaga þáverandi innanríkisráðherra var kynnt á ríkisstjórnarfundi 15. september 2016, af þáverandi forsætisráðherra, en slík mál koma einungis til kynningar en ekki samþykktar í ríkisstjórn. Innanríkisráðuneytið sendi tillöguna til forseta sem samþykkti hana 16. september,“ skrifaði Bjarni á Facebook.
Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, var líkt og áður segir, dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum. Síðan Robert fékk uppreist æru hafa tvær konur til viðbótar stigið fram og greint frá ofbeldi sem þær hafi verið beittar af hálfu Róberts.
Með uppreist æru getur Robert óskað eftir því að lögmannsréttindi hans verði endurvirkjuð. Það gerist ekki hins vegar ekki sjálfkrafa. Líkt og mbl.is greindi frá í lok júlí þá hefur Robert enn ekki óskað eftir því að réttindin verði endurvirkjuð, en hann þarf að sækja um það hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Eins og stendur er hann því ekki á skrá Lögmannafélags Íslands yfir lögmenn hér á landi.
Vinna er nú hafin í dómsmálaráðuneytinu við frumvarp sem breytir lögum, m.a. sem kveða á um uppreist æru. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segist stefna að því að frumvarpið og bandormur með því, vegna þess að það muni taka til ýmissa laga, verði lagt fram á næsta þingi.