Í sumar hafa mælst 450-700 jarðskjálftar á Íslandi í hverri viku. Það eru fleiri skjálftar en á sama tíma í fyrra þegar þeir voru um 350-400 vikulega. Almennt séð er virknin þó ekki óvenju mikil og enginn gosórói hefur mælst í sumar og því ekki meiri hætta á eldgosi nú en gengur og gerist á eldfjallaeyjunni Íslandi. Nokkuð kraftmikil hrina á Reykjanesi skýrir að mestu muninn milli ára.
Það sem er meðal annars að valda skjálftum sumarsins er sú staðreynd að spenna sem safnast hefur upp í bergi er að losna og „við viljum miklu heldur fá marga smáskjálfta heldur en einn stóran,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um virknina á Reykjanesi. Heimildir eru um að þar hafi orðið skjálftar um og yfir 6 að stærð á sögulegum tíma.
Þá er þekkt að Katla er líflegri að sumri en vetri, þar sem eldstöðin er undir jökli og hreyfingar hans og farg hafa áhrif á skjálftavirknina. Bárðarbunga er svo enn að sleikja sárin eftir gosið í Holuhrauni og safna kviku í sarp sinn.
Jörð hefur aðallega skolfið á fjórum svæðum í sumar; Á Reykjanesi, við Bárðarbungu í Vatnajökli, við Kötluöskjuna í Mýrdalsjökli og nú síðast á Torfajökulssvæðinu þar sem hrina smáskjálfta varð í gær, fimmtudag. Ekki er talið að tengsl séu á milli virkninnar á þessum stöðum sem allt eru þekkt jarðskjálftasvæði.
Jarðvirknina í Kötlu og Bárðarbungu þekkja allir en fátíðara er að skjálftahrinur, sem fólk finnur fyrir, verði á Reykjanesi. Torfajökulssvæðið á það svo til að skjálfa annað slagið en þar er eitt mesta jarðhitasvæði Íslands. Að auki er þar eldstöð þó hún hafi ekki gosið frá því á 15. öld.
Stærstu skjálftar sumarsins voru 4,5 að stærð. Annar varð í Bárðarbungu í fyrradag og hinn í Kötluöskjunni þann 27. júlí. Í þeirri viku hófst skjálftahrinan á Reykjanesskaganum og voru stærstu skjálftarnir í kringum 4 að stærð. Þeir fundust allir vel á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Verulega dró úr virkninni á Reykjanesi nokkrum dögum síðar en í morgun urðu þar þó nokkrir smærri skjálftar, sá stærsti 2,9 að stærð. „Reykjanesið var að aðeins að vakna aftur í morgun,“ segir Sigurdís Björg hjá Veðurstofunni. Á um tveimur klukkustundum mældust tæplega 20 skjálftar.
Hlaup varð í Múlakvísl, sem rennur undan Mýrdalsjökli, þann 27. júlí en það fjaraði nokkuð fljótt út. Rafleiðni hefur aukist aftur í ánni síðustu sólarhringa og er vel fylgst með gangi mála á Veðurstofu Íslands.
En hvað veldur skjálftum á Reykjanesi? Hvað verður svo til þess að Katla og Bárðarbunga minna nú á sig? Og hvers vegna fór Torfajökulssvæðið að skjálfa?
„Það sem skýrir virknina á Reykjanesinu eru brotahreyfingar,“ segir Sigurdís Björg og ítrekar að engar kvikuhreyfingar séu á svæðinu. Um svokallaðar sniðgengishreyfingar í jarðskorpunni er að ræða. „Það er eins og þú sért að nudda saman lófunum,“ útskýrir Sigurdís. „Við jarðvísindamennirnir köllum þetta „bookshelf“-hreyfingar.“ Virknin er eðlileg að sögn Sigurdísar, á Reykjanesi verði skjálftar reglulega. „Þarna er einfaldlega að losna spenna úr berginu. Það losnaði mikil spenna í hrinunni um daginn. En það eru oft eftirköst eftir svona kröftugar hrinur og það er það sem hefur verið að gerast í morgun.“
Í skjálftahrinu sem varð á Torfajökulssvæðinu í gær mældist stærsti skjálftinn 2,8 stig. Þónokkrir skjálftar urðu um svipað leyti en flestir voru þeir litlir eða í kringum 1 stig. Skjálftarnir áttu upptök sín í og við Hattvershveri í Jökulgili, um 7 kílómetrum suður af Landmannalaugum. Skjálftavirkni á svæðinu vel þekkt. Skjálftarnir í gær voru mjög grunnir og eru líklega m.a. tengdir jarðhitavirkninni á svæðinu.
Sigurdís segir virknina á svæðinu nú nokkuð áhugaverða. Vissulega sé um mikið jarðhitasvæði að ræða og jarðskjálftar geti tengst því. „En mjög mikil skerhreyfing [sniðgengishreyfingar] var í þessum skjálftum [í gær] og því eru þeir svipaðir því sem hefur verið að gerast á Reykjanesinu.“ Spennulosun úr berginu hafi átt sér stað. Hrinan í gær stóð stutt og í dag hefur aðeins mælst einn skjálfti á Torfajökulssvæðinu.
Stærsti skjálftinn í Kötlu í sumar var 4,5 stig og varð í síðustu viku.
Katla er eldstöð undir jökli og því eru nokkuð margir kraftar að störfum sem geta verið sökudólgarnir þegar hún skelfur. „Í öskjunni og á brún hennar er nú mikil virkni og slíkt gerist oft á sumrin,“ segir Sigurdís. Hreyfingar jökulsins eru ein skýringin á því. „Við búumst alltaf við meira fjöri í Kötlu á sumrin.“
Hún segir farg jökulsins geta minnkað á sumrin, hann sé meira á hreyfingu og þrýstingsbreytingar verði því ofan á eldstöðinni. „En svo er þarna líka jarðhitasvæði undir jökli. Þannig að þetta hefur að gera með svo marga þætti. Sumir tala líka um breytingar á grunnvatnsþrýstingi.“ Fyrir utan allt þetta verða svo einnig skerhreyfingar, þ.e. hreyfingar á berginu, í öskjunni sjálfri.
Katla er nokkuð flókið viðfangsefni jarðvísindanna af þessum sökum. Hún er þakin jökli og því þarf að gera margvíslegar mælingar til að fylgjast með breytingum á virkni hennar. Eitt af því sem vel er fylgst með er svokölluð rafleiðni í vatninu sem kemur undan Mýrdalsjökli og fellur m.a. í Múlakvísl sem hljóp einmitt í kjölfar stóra skjálftans í síðustu viku. Síðustu klukkustundirnar hefur rafleiðnin aukist aftur í ánni en slíkt var viðbúið að sögn Sigurdísar.
Rafleiðni er í raun mæling á magni jarðhitavatns í ánni. Þetta bendir til þess að nú sé jarðhitavatn í auknum mæli að blandast jökulvatninu í Múlakvísl á nýjan leik. „Það var viðbúið en við fylgjumst grannt með þessu. Því jökulhlaupið í síðustu viku breytti aðeins rennslisleiðum undir jöklinum. Hugsanlega gæti því annað jarðhitavatn sem er að safnast upp í sigkötlunum nú haft greiðari leið undan jöklinum heldur en var fyrir jökulhlaupið.“
Eitt sem erfiðar mælingar á þessu er sú staðreynd að Múlakvísl rennur um sanda og getur grafið sig djúpt niður í þá. Það er því snúið að fylgjast með vatnshæðinni og breytingum á henni. Til verksins notar Veðurstofan m.a. vefmyndavélar sem vökult auga er haft á.
Bárðarbunga var á allra vörum árið 2014-2015 er hún fór að ókyrrast og að lokum varð eldgos í Holuhrauni. Hún minnti svo á sig með skjálfta upp á 4,5 í fyrradag, þann 2. ágúst. „Þar er svipað ástand og í Kötlu,“ segir Sigurdís um virknina í Bárðarbungu. „Þar er eldstöð sem er að hreyfa sig, hún er að jafna sig eftir Holuhraunsgosið.“
Í því gosi tæmdist gríðarlegt magn af kviku úr kvikuhólfi eldstöðvarinnar. „Það hafði meðal annars þau áhrif að öskjugólfið hrundi og núna er líklega kvika að safnast aftur í eldstöðina.“
Slíkt er að eiga sér stað á fleiri kílómetra dýpi. Líkt og Katla er Bárðarbunguaskjan hulin jökli og það torveldar allar mælingar og rannsóknir á henni. „En það er tilefni til að fylgjast áfram með Bárðarbungu þótt að við séum ekkert að æsa okkur þegar smáir skjálftar verða þar. Þessi skjálfti var hins vegar 4,5, sem er ágæt stærð, og áhugavert að sjá hvað er að gerast.“