„Miðað við þann fjölda sem við erum að flytja er ljóst að þetta er með stærstu Þjóðhátíðunum. Í gegnum okkur hafa líklega aldrei farið fleiri,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, í samtali við mbl.is, en mikill fjöldi fólks hefur farið með ferjunum Herjólfi og Akranesi til Eyja í dag og gær.
„Herjólfur er á áætlun með gríðarlegan fjölda af fólki samkvæmt því sem við megum og Akranesið er að sigla líka. Það byrjaði rólega í morgun en hefur verið að þéttast og er fullt í næstu þrjár ferðir með Akranesinu,“ segir Gunnlaugur.
Hann segir daginn hafa verið frábæran, og allt stefni í mikla og góða gleði. „Ég er með verki í kjálkunum ég er búinn að brosa svo mikið,“ segir hann glaður í bragði.
Gunnlaugur er staddur í Herjólfsdal þegar blaðamaður nær tali af honum, en þar var Þjóðhátíð sett klukkan hálf þrjú. „Hér er bros á öllum vörum og stefnir í frábæra helgi,“ segir Gunnlaugur og bætir við að blíðskaparveður sé á eynni. „Þetta er afbragðsdagur.“